Sport

Fimmtán ára og tólf ára heimsmet féllu bæði á sömu braut í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joshua Cheptegei hefur bætt tvö gömul heimsmet á stuttum tíma.
Joshua Cheptegei hefur bætt tvö gömul heimsmet á stuttum tíma. Getty/Matthias Hangst

Joshua Cheptegei frá Úganda og Letesenbet Gidey frá Eþíópiu settu bæði heimsmet í gær á heimsmetakvöldi í Valencia á Spáni.

Joshua Cheptegei sló metrið í tíu þúsund metra hlaupi karla en Letesenbet Gidey sló heimsmetið í fimm þúsund metra hlaupi kvenna.

Hinn 24 ára gamli Cheptegei kom í mark á 26 mínútum og 11 sekúndum en gamla metið var orðið fimmtán ára gamalt. Cheptegei hljóp sex sekúndum hraðar en Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele sem átti metið frá 2005 til 2020.

Hin 22 ára gamla Gidey kom í mark á 14 mínútum og 6,62 sekúndum en gamla metið frá 2008 var upp á 14 mínútur og 11,15 sekúndum. Gamla metið átti landa hennar Tirunesh Dibaba.

„Ég er ánægð. Þetta hefur verið draumur minn lengi og þetta er því mjög stórt fyrir mig,“ sagði Letesenbet Gidey eftir hlaupið.

Joshua Cheptegei hefur verið í miklum heimsmetaham en þetta var fjórða heimsmet hans á aðeins tíu mánuðum. Hann hafði áður sett heimsmet í 10 km og 5 km götuhlaupi en líka bætt heimsmet Bekele í fimm þúsund metra hlaupi í ágúst síðastliðnum. Það met var orðið sextán ára gamalt.

Cheptegei og Gidey voru bæði með héra í hlaupinu til að hjálpa þeim við að setja heimsmetið en 400 manns voru mætt á Turia leikvanginn í Valencia til að fylgjast með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×