Erlent

Skutu hljóðfrárri eldflaug á tíu þúsund kílómetra hraða

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladímír Pútín og Valery Gerasimov, formaður herforingjaráðs Rússlands.
Vladímír Pútín og Valery Gerasimov, formaður herforingjaráðs Rússlands. Forsetaembætti Rússlands

Rússneskir hermenn og vísindamenn gerðu í gær tilraun með hljóðfráa eldflaug af gerðinni Tsirkon. Skotið var á skotmark í Barentshafi og var það hæft. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að þróuð vopn sem þessi muni tryggja varnargetu herafla Rússlands til margra ára.

Valery Gerasimov, formaður herforingjaráðs Rússlands, sagði Pútín í kjölfarið frá æfingarskotinu. Hann sagði eldflauginni hafa verið skotiðo frá herskipinu Admiral Gorshkov í Hvítahafi.

Gerasimov sagði eldflaugina hafa hitt skotmark í um 450 kílómetra fjarlægð frá skotstaðnum. Eldflaugin hafi verið fjóra og hálfa mínútu að ferðast þá vegalengd og hafi mest náð áttföldum hljóðhraða, samkvæmt frétt TASS, fréttaveitunnar sem er í eigu rússneska ríkisins.

Áttfaldur hljóðhraði er tæplega tíu þúsund kílómetrar á klukkustund.

Pútín segir að mjög mikilvægan atburð sé að ræða, ekki bara fyrir herafla Rússlands, heldur Rússland sjálft. Svo þróuð vopn muni tryggja varnargetu Rússlands til margra ára.

Fyrstu eldflauginni af þessari gerði var skotið í tilraunaskyni af herskipi í janúar. Pútín sagði einnig í dag að tilraunir myndu halda áfram og að þeim loknum yrðu Tsirkon-eldflaugum komið fyrir á öllum skipum og kafbátum Rússlands.

Hljóðfráar eldflaugar sem þessar gera hefðbundnar eldflaugavarnir nánast úreltar því þær geta breytt snögglega af stefnu og komið sér undan öðrum eldflaugum. Rússar, Bandaríkin og Kína vinna hörðum höndum að þróun þessara vopna.

Í raun eru tvær tegundir hljóðfrárra eldflauga til. Önnur gerðin er skamm- til meðaldræg og er keyrð af eldflaugarhreyfli, eins og hefðbundin skammdræg eldflaug. Hin gerðin er borin upp í gufuhvolfið af langdrægri eldflaug og fellur svo til jarðar á gífurlegum hraða.

Hér að neðan má sjá frétt CNBC frá því fyrra um kapphlaupið að hljóðfráum eldflaugum og þar að neðan er myndband sem útskýrir hvernig hljóðfráar eldflaugar virka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×