Körfubolti

Gekk úr myndveri til að sýna leikmönnum stuðning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Inside the NBA á TNT nýtur mikilla vinsælda vestanhafs.
Inside the NBA á TNT nýtur mikilla vinsælda vestanhafs. getty/Kevin Winter

Kenny Smith gekk úr myndveri í þættinum Inside The NBA á TNT til að sýna leikmönnum NBA-deildarinnar stuðning eftir að þeir neituðu að spila í gær til að mótmæla skotárás lögreglumanns á Jacob Blake og kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum.

Leikmenn Milwaukee Bucks mættu ekki til leiks gegn Orlando Magic í gærkvöldi í mótmælaskyni og í kjölfarið var öðrum leikjum kvöldsins frestað.

Atburðir gærkvöldsins vöktu mikla athygli og af því tilefni bauð TNT upp á aukaþátt af Inside the NBA. Þar voru þeir Shaquille O'Neal, Kenny Smith og Charles Barkley á sínum stað ásamt stjórnandanum Ernie Johnson.

„Það er eins og hausinn á mér sé að fara að springa þegar ég hugsa um það sem er í gangi,“ sagði Smith þegar hann tók til máls.

„Ég held það sé best fyrir mig, sem svartan mann og fyrrverandi leikmann, að styðja leikmennina og vera ekki hér í kvöld,“ sagði Smith sem tók í kjölfarið af sér hljóðnemann og gekk úr myndverinu.

Johnson sagðist virða ákvörðun Smiths sem varð tvisvar sinnum NBA-meistari með Houston Rockets á 10. áratug síðustu aldar.

Bæði fyrrverandi og núverandi leikmenn í NBA hafa hrósað Milwaukee-mönnum fyrir að mæta ekki til leiks og greinilegt er að körfuboltasamfélagið vestanhafs stendur saman í þessu máli.

Leikmenn NBA-deildarinnar funduðu í gær þar sem m.a. var rætt um að hætta við úrslitakeppnina til að knýja fram breytingar. LeBron James hjá Los Angeles Lakers og Kawhi Leonard hjá Los Angeles Clippers eiga báðir að hafa lagt þetta til.

Lögreglumaður skaut Jacob Blake sjö sinnum í bakið er hann fór inn í bíl sinn í Kenosha í Wisconsin á sunnudaginn. Þrjú af börnum hans voru í bílnum. Blake lifði af en er lamaður fyrir neðan mitti. Í kjölfar skotárásarinnar brutust út mikil mótmæli víðs vegar um Bandaríkin.

NBA

Tengdar fréttir

Öllum leikjum kvöldsins frestað

Öllum þremur leikjum kvöldsins sem áttu að fara fram í úrslitakeppni NBA körfuboltanum hefur nú verið frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×