Körfubolti

Flóðbylgja frestana í bandarísku íþróttalífi eftir ákvörðun Bucks í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nneka Ogwumike, formaður leikmannasamtaka NBA-deildarinnar, ræðir við leikmenn Atlanta Dream, Washington Mystics, Minnesota Lynx, og Los Angeles Sparks sem ákváðu allir að spila ekki leikina í gær í mótmælaskyni.
Nneka Ogwumike, formaður leikmannasamtaka NBA-deildarinnar, ræðir við leikmenn Atlanta Dream, Washington Mystics, Minnesota Lynx, og Los Angeles Sparks sem ákváðu allir að spila ekki leikina í gær í mótmælaskyni. Getty/ Julio Aguilar

Íþróttamenn og íþróttalið í Bandaríkjunum stóðu með Milwaukee Bucks liðinu í nótt og það var því ekkert af þeim leikjum sem áttu að fara fram í öðrum íþróttagreinum í landinu.

Leikmenn Milwaukee Bucks i NBA-deildinni tók þá ákvörðun fyrir leik sinn í úrslitakeppninni í gær og mæta ekki til leiks í mótmælaskyni vegna skotárásar lögreglu á blökkumanninn Jacob Blake. Atvikið gerðist í Wisconsin-fylki sem er heimafylki Milwaukee Bucks liðins.

Leikmenn Milwaukee Bucks kröfðust réttlætis fyrir Jacob Blake sem var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglumönnum þegar hann fór inn í bílinn sinn þar sem voru meðal annars börnin hans þrjú. Atvikið náðist á myndband en Blake var óvopnaður.

Verkföll eru bönnuð samkvæmt samningi leikmanna og NBA-deildarinnar en atvikið með Blake í kjölfarið á því sem gerðist með George Floyd var enn eitt dæmið um það kerfisbundna óréttlæti sem blökkumenn glíma við í Bandaríkjunum.

Fljótlega fóru líka að berast fréttir af því að hin liðin í NBA-úrslitakeppninni ætluðu að gera það saman og NBA-deildin frestaði síðan öllum leikjunum, líka þeim þar sem Milwaukee Bucks mætti ekki. Þetta átti að verða kvöld með þremur æsispennandi leikjum fimm í úrslitakeppninni en í staðinn fór enginn þeirra fram.

Leikmenn í NBA-deildinni funduðu síðan í framhaldinu og þótt einhverjir hafi verið ósáttir með það að Milwaukee Bucks liðið lét hin liðin ekki vita þá var samtakamátturinn mikill og það verður því fróðlegt að sjá hver næstu skrefin verða.

Samtakamátturinn náði líka inn í aðrar íþróttagreinar. Eftir að NBA frestaði sínum þremur leikjum þá var gekk flóðbylgja frestana yfir bandarískt íþróttalíf. Þremur leikjum í WNBA-deildinni, fimm leikjum í MLS-fótboltadeildinni og þremur leikjum í bandaríska hafnaboltanum var líka frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×