Sport

Aðalþjálfari NFL-liðs með krabbamein en hættir ekki að þjálfa liðið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ron Rivera þjálfaði áður lið Carolina Panthers í níu ár.
Ron Rivera þjálfaði áður lið Carolina Panthers í níu ár. EPA-EFE/DAN ANDERSON

Ron Rivera, þjálfari Washington liðsins í NFL-deildinni, greindist með krabbamein á dögunum en hann sagði frá þessu opinberlega í nótt.

Ron Rivera er með húðkrabbamein sem er komið í eitlana en það fannst snemma og læknar eru bjartsýnir fyrir hönd Rivera um að hann nái sér.

Ron Rivera kallaði alla leikmenn liðsins saman og sagði þeim frá þessu. Hann vildi að þeir heyrðu þetta allir frá honum sjálfum.

„Mér var brugðið. Ég var líka reiður því mér finnst ég hafi aldrei verið heilsuhraustari en einmitt núna,“ sagði Ron Rivera.

Það er engin uppgjöf í Ron Rivera sjálfum sem hefur beðið félagið að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hann ætlar að þjálfa liðið áfram en mun þó vera með plan B fari svo að hann þurfi að fara í veikindaleyfi.

Það styttist í NFL-tímabilið en Ron Rivera átti mikið verk fyrir höndum innan raða Washington liðsins, bæði við að gera liðið betra inn á vellinum en eins til að laga vinnumenninguna utan hans.

Washington liðið, sem hætti að nota nafnið sitt sitt í sumar, ætlar ekki að finna sér nýtt nafn fyrr en seinna. Liðið heitir því Washington Football Club á komandi tímabili.

Ron Rivera er 58 ára gamall og þetta er fyrsta tímabil hans með Washington liðið. Hann hefur hins vegar mikla reynslu úr NFL-deildinni og þjálfaði meðal annars lið Carolina Panthers í átta ár þar á undan eða frá 2011 til 2019.

Fyrstu mánuðirnir í starfi hafa reynt mikið á Ron Rivera. Það er auðvitað kórónuveirufaraldurinn, svo þurfti liðið að skipta út rasísku nafni sínu og þá hafa komið fram upplýsingar um viðamikið kynferðislegt áreiti meðal starfsmanna félagsins. Krabbameinið bætist síðan ofan á það.

„Ég ætla að halda áfram að þjálfa. Læknarnir hafa líka hvatt mig til þess. Þeir sögðu við mig: Ef þú hefur orku þá skaltu gera það. Ekki hægja á þér og haltu áfram að hreyfa þig. Það segja mér samt allir að ég fari virkilega að finna fyrir lyfjameðferðinni á viku þrjú eða fjögur,“ sagði Ron Rivera í samtali við Adam Schefter á ESPN.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×