Handbolti

Hefur „ekki hug­mynd“ um hve­nær HSÍ getur klárað Ís­lands­mótið

Anton Ingi Leifsson skrifar
HSÍ ákvað fyrr í dag að fresta öllum leikjum ótímabundið. Ákvörðunin kom eftir tilkynningu heilbrigðisráðherra fyrr í dag þar sem sett var á samkomubann en Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, sagði ekkert annað í stöðunni.

Ákvörðunin var tekin á stjórnarfundi nú síðdegis og að öllum handbolta yrði aflýst næstu vikurnar. Hann segir að bannið muni gilda svo lengi sem samkomubannið verði við gildi.

„Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif. Liðin og félögin verða fyrir miklu tekjutapi. Við erum ekki að sjá að þeir geti æft miðað við þær upplýsingar sem við fengum á fundinum áðan. Þetta hefur miklar afleiðingar,“ sagði Róbert í samtali við Guðjón Guðmundsson.

Landsleikir íslenska kvennalandsliðsins sem voru fyrirhugaðir við Tyrki síðar í mánuðinum hefur verið frestað.

„Evrópusambandið frestaði öllu í dag. Leikirnir við Tyrki verða í júní og svo var Evrópukeppninni hjá Val frestað líka. Þeir eiga fyrirhugaðan leik í apríl skömmu eftir páska.“

A-landslið karla átti að leika æfingaleiki við Evrópumeistara Spánverja en úr því verður ekki.

„Við vorum að semja við Spánverja og höfðum hug á því að fara til Spánar en af því verður ekki. Hvað varðar æfingar í vikunni eftir páska verður að koma í ljós. Samkomubannið rennur út á mánudeginum og við ætluðum að byrja á þriðjudeginum en hvort að það muni lengjast verður að skýrast.“

Róbert segir að sambandið séu engu nær hvenær hægt verði að klára deildarkeppnirnar sem og úrslitakeppnina í Olís-deildum karla og kvenna.

„Ekki hugmynd. Eins og staðan er núna erum við að ljúka við að þessu banni ljúki 13. apríl. Þá förum við fljótlega í deildarkeppnir. Það skýrist betur eftir því hvort liðin geti æft og við þurfum að fá nánari skýringu á því. Ef þeim verður ekki heimilt að æfa verða þau að hefja fyrst æfingar áður en við förum í það að klára deildirnar og klárum svo úrslitakeppnina í framhaldi.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×