Handbolti

Fram fagnaði eftir flókna ferðaviku

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Kárason, hér í Evrópuleik gegn Elverum, var áberandi í Eyjum í kvöld.
Rúnar Kárason, hér í Evrópuleik gegn Elverum, var áberandi í Eyjum í kvöld. vísir/Anton

Íslands- og bikarmeistarar Fram unnu sannfærandi sex marka sigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld, 34-28, í 10. umferð Olís-deildar karla í handbolta.

Sigurinn var kærkominn fyrir Framara eftir erfiða ferðaviku en þeir ferðuðust til Kriens í Sviss í vikunni, með tilheyrandi millilendingum og dvöl á flugvöllum, til þess að spila í Evrópudeildinni á þriðjudag og áttu svo leikinn í Eyjum í kvöld.

Framarar virkuðu engu að síður ferskir og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12, í kvöld og lönduðu að lokum sex marka sigri. 

Fram hefur því unnið fimm af fyrstu tíu leikjum sínum og er með 10 stig í 7. sæti, stigi á eftir ÍBV og FH.

Rúnar Kárason, fyrrverandi leikmaður ÍBV, var markahæstur hjá Fram með átta mörk, Viktor Sigurðsson skoraði sex og Ívar Logi Styrmisson fimm á sínum gömlu heimaslóðum.

Sigtryggur Daði Rúnarsson var hins vegar markahæstur ÍBV með níu mörk, Andri Erlingsson skoraði fimm og Sveinn José Rivera fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×