Fótbolti

Móðir Cristiano Ronaldo flutt með hraði á sjúkrahús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og móðir hans Dolores Aveiro eftir að hann vann ítalska bikarinn með Juventus.
Cristiano Ronaldo og móðir hans Dolores Aveiro eftir að hann vann ítalska bikarinn með Juventus. Getty/ Nicolò Campo

Móðir knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo fékk heilablóðfall en er komin undir læknishendur samkvæmt fréttamiðlum frá Madeira.

Dolores Aveiro er 65 ára gömul og hefur verið að glíma við krabbamein síðasta árið.

Fréttamiðlar á Madeira segja að líðan hennar sé stöðug og að hún sé með meðvitund. Hún þurfi hins vegar að gangast undir fleiri rannsóknir. Sjúkrahúsið hefur þó ekki staðfest þessar fréttir.



Cristiano Ronaldo er einn af fjórum börnum Dolores Aveiro en hún hafði náð náð sér eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein fyrir meira ein áratug.

Dolores Aveiro var flutt á Dr Nelio Mendonca sjúkrahúsið klukkan fimm í morgun en hún býr á eyjunni Madeira í Atlantshafi sem heyrir undir Portúgal. Samkvæmt fréttunum frá Madeira þá fékk hún líklega blóðtappa.



Dolores Aveiro fékk fyrst krabbamein árið 2007 en náði að sigra það. Í febrúar á síðasta ári greindi hún frá því að krabbameinið hefði tekið sig upp aftur. Hún lét þá fjarlægja hitt brjóstið og fór í geislameðferð.

Cristiano Ronaldo segist eiga móður sinni mikið að þakka og að hún hafi fórnað sér fyrir hann. „Hún fór svöng að sofa svo að ég fengi að borða. Við áttum enga peninga og hún vann sjö daga vikunnar svo ég gæti orðið fótboltamaður.. Öll mín velgengni er tileinkuð henni,“ sagði Cristiano Ronaldo eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×