Sport

Arnar tryggði sér keppnisrétt á World Series í Las Vegas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Davíð Jónsson.
Arnar Davíð Jónsson. Mynd/Keilusamband Íslands
Keilarinn Arnar Davíð Jónsson úr KFR tryggði sér um helgina keppnisrétt á World Series of Bowling mótaröðinni í Bandaríkjunum með því að lenda í öðru sæti í undankeppni fyrir WSOB.

Mótin fara fram í Las Vegas næstu tvær vikurnar. Þar munu 120 bestu keilarar heims keppa um 4 titla á bandaríska atvinnumannatúrnum en World Series of Bowling er stærsti viðburður túrsins ár hvert.

Arnar Davðíð er annar Íslendingurinn sem hefur fengið þátttökurétt á WSOB mótinu og sá þriðji sem keppir á PBA túrnum en Stefán Claessen ÍR keppti á PBA móti 2009 og Hafþór Harðarson ÍR á WSOB fyrir nokkrum árum.

Arnar hefur lokið keppni á fyrsta mótinu sem kallast Cheetah Championship og vísar nafnið til olíuburðarins sem notaður er á brautunum í viðkomandi móti. Arnar lauk keppni í 80. sæti með 203,1 í meðaltal.

Arnar Davíð Jónsson varð í fyrra fyrsti Íslendingurinn til að vinna Evrópumótaröðina í keilu og hann var seinna einn af tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×