Innlent

Ása og Sandra settar í em­bætti dómara við Lands­rétt

Eiður Þór Árnason skrifar
Dómnefnd um hæfni umsækjanda um embætti dómara komst að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að Ása Ólafsdóttir væri hæfust til þess að verða sett í embættið
Dómnefnd um hæfni umsækjanda um embætti dómara komst að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að Ása Ólafsdóttir væri hæfust til þess að verða sett í embættið Vísir/Egill

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að setja Ásu Ólafsdóttur, prófessor og forseta lagadeildar Háskóla Íslands, og Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara í embætti dómara við Landsrétt.

Þær verða settar tímabundið í embættið vegna leyfa tveggja dómara sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur að hafi verið ólöglega skipaðir á sínum tíma.

Ása veður sett í embætti frá 25. febrúar til 30. júní 2020 og Sandra frá 2. mars til 30. júní 2020.

Dómnefnd um hæfni umsækjanda um embætti dómara komst að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að Ása Ólafsdóttir væri metin hæfust til þess að verða sett í embættið. Næst á eftir voru Sandra Baldvinsdóttir og Ástráður Haraldsson héraðsdómari sögð jafnsett.

„Öll búa þau að yfirgripsmikilli þekkingu á ýmsum sviðum lögfræði, auk fjölbreyttrar reynslu af störfum í lögmennsku, stjórnsýslu og við dómstóla,“ sagði í umsögn nefndarinnar.

Áður sótt um embættið

Sandra og Ástráður hafa bæði sótt áður um embætti dómara við Landsrétt og var Ástráður var einn af þeim sem var metinn hæfastur af hæfnisnefnd þegar Landsrétti var komið á fót.

Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, setti hann hins vegar ekki á lista yfir þá dómara sem að lokum voru settir í embætti.

Ástráði voru þá dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að endurraða lista yfir hæfustu umsækjendur.

Skipan dómara dæmd brotleg

Meirihluti Mannréttindadóms Evrópu komst svo að þeirri niðurstöðu í mars á síðasta ári að skipan dómara við Landsrétt hafi brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Íslenska ríkið áfrýjaði niðurstöðunni til yfirdeildar dómstólsins og var málið flutt fyrir yfirdeildinni fyrr í þessum mánuði.

Þetta var í þriðja sinn sem Ástráður sækir um dómarastöðu við Landsrétt.

Átta sóttu um embættin við réttinn að þessu sinni en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Við mat á hæfni umsækjenda var litið til menntunar, starfsferils og fræðilegrar þekkingu, aukastarfa og félagsstarfa, almennrar starfshæfni, sérstakrar starfshæfni og andlegs atgervis umsækjenda, að sögn hæfnisnefndar.


Tengdar fréttir

Ása Ólafsdóttir talin hæfust í Landsrétt

Dómnefnd um hæfni umsækjanda um embætti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ása Ólafsdóttir, forseti Lagadeildar Háskóla Íslands, sé hæfust umsækjenda um dómarastöðu við Landsrétt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.