Innlent

Fyrsta vopnaða ránið í um fjöru­tíu ára sögu Kjöt­borgar

Atli Ísleifsson skrifar
Bræðurnir Gunnar og Kristján Jónassynir opnuðu Kjötborg árið 1981.
Bræðurnir Gunnar og Kristján Jónassynir opnuðu Kjötborg árið 1981. vísir/vilhelm

Ungur maður vopnaður hnífi réðst inn í verslun Kjötborgar á horni Blómvallagötu og Ásvallagötu í vesturbæ Reykjavíkur um miðjan dag á þriðjudaginn. Var þetta fyrsta ránið í sögu verslunarinnar.

Gunnar Jónasson, annar eigenda Kjötborgar, segir að maðurinn hafi komist undan með „einhverja þúsundkalla“, en að honum skiljist að lögreglu hafi nú tekist að hafa hendur í hári mannsins.

Staðið vaktina frá 1981

Gunnar rekur Kjötborg í félagi við Kristján bróður sinn og hafa þeir staðið þar vaktina frá árinu 1981.

„Þetta er fyrsta ránið sem á sér stað hérna. Það hlaut nú að koma að því, en við vonum bara að það verði fjörutíu ár eða jafnvel fleiri í það næsta. Þetta er eitthvað sem maður á alltaf óbeint von á, en hefur aldrei lent í.“

Gunnar segir að vopnaði maðurinn hafi ruðst inn um klukkan 14 á þriðjudaginn. „Hann var vopnaður hnífi. Bróðir minn stóð vaktina þá, en ég var sjálfur að ná í vörur. Það voru engir viðskiptavinir í versluninni á þessu augnabliki þegar þetta átti sér stað.“

Ekki með sömu reynslu og Pétursbúð

Hann segir að þó að maðurinn hafi verið grímuklæddur og með sólgleraugu þá hafi Kristján engu að síður náð að veita lögreglu greinargóða lýsingu á manninum.

„Við höfum aldrei lent í þessu og höfum því ekki mikla reynslu eins og Pétursbúð. Við létum hins vegar ekkert reyna á að vera með einhverja takta og létum svo lögreglu vita af því að þetta er náttúrulega eitthvað sem þarf að stoppa,“ segir Gunnar að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×