Erlent

Berni­e Sanders efstur í for­vali Demó­krata í New Hamps­hire

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sanders ávarpar stuðningsmenn sína í New Hampshire í nótt.
Sanders ávarpar stuðningsmenn sína í New Hampshire í nótt. vísir/getty

Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders varð efstur í forvali Demókrata í New Hampshire fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en forvalið fór fram í gær. Því lauk í nótt að íslenskum tíma.

Hinn róttæki Sanders hafði betur en þau Pete Buttigieg, sem hafnaði í öðru sæti, og Amy Klobuchar, sem varð þriðja í forvalinu.

Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrata í Massachusetts, varð í fjórða sæti en Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefði án efa viljað gera betur en að verða sá fimmti í röðinni. Þykja úrslitin í forvalinu áfall fyrir Biden.

Frumkvöðullinn Andrew Yang og öldunadeildarþingmaðurinn Michael Bennett hættu báðir þátttöku í forvalinu eftir að úrslit voru kynnt í New Hampshire.

Alls greiddu 280 þúsund Demókratar atkvæði í forvalinu í gær og hlaut Sanders 26% atkvæða. Þegar búið að er telja 95% atkvæða munar aðeins 1,6% á Buttigieg, fyrrverandi borgarstjóra South Bend í Indiana, og Sanders, eða um 4.300 atkvæðum.

Munu þeir báðir fá alls níu fulltrúa á landsþing Demókrata síðar á árinu en forsetaframbjóðandi flokksins er útnefndur á þinginu.

Sanders fagnaði frábærum sigri þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í borginni Manchester í New Hampshire í nótt.

„Þessi sigur er upphafið að endalokunum fyrir Donald Trump,“ sagði Sanders og lofaði að búa til áður óséða hreyfingu þar sem allir kynþættir og allar kynslóðir kæmu saman til þess að sigra sitjandi Bandaríkjaforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×