Sport

Aldís Kara braut blað í skautasögu Íslands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aldís Kara Bergsdóttir komst í dag á heimsmeistaramót unglinga í listhlaupi á skautum.
Aldís Kara Bergsdóttir komst í dag á heimsmeistaramót unglinga í listhlaupi á skautum. mynd/skautasamband íslands

Aldís Kara Bergsdóttir varð í dag fyrst íslenskra einstaklingsskautara til að tryggja sér tæknistig Alþjóðaskautasambandsins ISU sem veita henni keppnisleyfi á HM unglinga í listhlaupi á skautum.

Tæknistigin eru helmingur einkunnar hvers prógrams og fer eftir erfiðleikastigum þeirra atriða sem skautarinn framkvæmir. Í stuttu prógrami þarf að ná að lágmarki 23 stigum og í frjálsa prógraminu 38 stigum. Ekki þarf að ná stigunum í báðum prógrömunum á sama móti en mótin þurfa að vera á lista Alþjóðasambandsins til þess að þau gildi.

Aldís Kara náði tæknistigum í stutta prógraminu á Halloween Cup í október s.l. og svo aftur á Reykjavíkurleikunum fyrir tveimur vikum. Norðurlandamótið var síðast möguleikinn að ná stigunum fyrir HM og því var mikið undir.

Aldís Kara mætti einbeitt til leiks í dag í frjálsa prógramið og var ljóst að hún ætlaði sér að ná lágmarkinu. Hún gerði það og gott betur því hún fékk 43.34 tæknistig í frjálsa prógraminu sem er heilum 5.34 stigum yfir lágmarkinu. 

Þessi áfangi er ekki sá eini sem Aldís náði í dag því með frammistöðu sinni setti hún einnig stigamet Íslendings í flokki unglinga á Norðurlandamótinu er hún fékk 115.39 stig samanlagt, sem er bæting upp á 11.87 stig. Það met átti hún sjálf en hún setti það í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×