Fótbolti

Sportpakkinn: 27 mínútur á milli sigurmarka Messi og Ronaldo í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo fagna sigurmörkum sínum í gær.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo fagna sigurmörkum sínum í gær. Vísir/Getty

Knattspyrnusnillingarnir Lionel Messi og Cristiano Ronaldo voru enn á ný á skotskónum með liðum sínum í gær og þeir skoruðu báðir sigurmarkið og það með stuttu millibili. Guðjón Guðmundsson skoðaði sigurleiki Juventus og Barcelona í gær.

Cristiano Ronaldo er á miklu skriði í ítalska boltanum með stórliði Juventus sem fékk Parma í heimsókn í gær. Það var ekki fyrr en á markamínútunni, þeirri 43., að Juventus náði að brjóta ísinn. Ronaldo fékk þá boltann frá Blaise Matuidi, lét skotið ríða af og það fór í markið með viðkomu í varnarmanni.

Hinn danski Andreas Cornelius náði að jafna metin fyrir Parma þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þetta var hins vegar skammvinn gleði fyrir Parma.  


Þremur mínútum síðar var aftur komið að Cristiano Ronaldo að skora en nú eftir undirbúning frá Paulo Dybala. Ronaldo er þar með búinn að skora ellefu mörk í síðustu sjö deildarleikjum.

Ronaldo skoraði þarna 432. mark sitt í fimm stærstu deildum Evrópu og tókst um tíma að jafna met Lionel Messi.

Lionel Messi og félagar tóku á móti Granada á Nývangi, þar sem nýr knattspyrnustjóri félagsins, Quique Setién, stýrði heimamönnum í fyrsta sinn.

Barcelona réði lögum og lofum í leiknum en skoraði ekki fyrr en Granada missti mann af velli á 69. mínútu þegar Germán Sánchez fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum.

Barcelona skoraði eina mark leiksins á 76. mínútu og það var auðvitað Lionel Messi sem skoraði, hver annar. Deildarmark númer 433 hjá Lionel Messi fyrir Barcelona sem er met yfir flest deildarmörk í fimm stærstu deildum Evrópu.

Það voru aðeins 27 mínútur á milli sigurmarka Lionel Messi og Cristiano Ronaldo í gær.

Hér fyrir neðan má sjá frétt Guðjóns Guðmundssonar um sigurleiki Juventus og Barcelona í gær.

Klippa: Sportpakkinn: 27 mínútur á milli sigurmarka Messi og Ronaldo í gærAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.