Erlent

Vinstri­menn höfðu betur gegn Salvini og fé­lögum í Emili­a-Romagna

Atli Ísleifsson skrifar
Matteo Salvini tók mjög virkan þátt í kosningabaráttunni í Emilia-Romagna, en hann vonaðist til þess að með því að bera sigur úr býtum í kosningunum þar gæti það skilað sér í að stjórnarsamstarf Lýðræðisflokksins og Fimm stjörnu hreyfingarinnar á landsvísu gæti runnið sitt skeið á enda.
Matteo Salvini tók mjög virkan þátt í kosningabaráttunni í Emilia-Romagna, en hann vonaðist til þess að með því að bera sigur úr býtum í kosningunum þar gæti það skilað sér í að stjórnarsamstarf Lýðræðisflokksins og Fimm stjörnu hreyfingarinnar á landsvísu gæti runnið sitt skeið á enda. Getty

Lýðræðisflokkurinn á Ítalíu, sem skilgreindur er sem mið-vinstriflokkur, virðist hafa haft betur gegn Bandalaginu, flokki fyrrverandi innanríkisráðherrans Matteo Salvini, í héraðskosningum í Emilia-Romagna í norðurhluta Ítalíu sem fram fóru í dag.

Útgönguspá RAI benti til að Lýðræðisflokkurinn hafi fengið á milli 47 og 51 prósent atkvæða, en Bandalagið milli 44 og 48 prósent.

Sérstaklega náið hefur verið fylgst með kosningunum í Emilia-Romagna þar sem vinstriflokkar hafa verið við stjórn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Héraðið er eitt það auðugasta á Ítalíu, en höfuðborg þess er Bologna.

Tók mjög virkan þátt í kosningabaráttunni

Salvini tók mjög virkan þátt í kosningabaráttunni í héraðinu, en hann vonaðist til þess að með því að bera sigur úr býtum í kosningunum þar gæti það skilað sér í að stjórnarsamstarf Lýðræðisflokksins og Fimm stjörnu hreyfingarinnar á landsvísu gæti runnið sitt skeið á enda.

Reiknað er með að lokatölur muni liggja fyrir á morgun. Héraðskosningar fóru einnig fram í Kalabríu í suðurhluta landsins þar sem Bandalagið virðist hafa unnið öruggan sigur, líkt og skoðanakannanir bentu til.

Misreiknaði stöðuna

Salvini og Bandalag hans hafa talað fyrir strangari innflytjendalöggjöf, lækkun skatta og gegn náinni Evrópusamvinnu.

Salvini tók við embætti innanríkisráðherra sumarið 2018, en hann sagði af sér í ágúst síðastliðinn og sleit stjórnarsamstarfi við Fimm stjörnu hreyfinguna, í þeirri trú að boðað yrði til nýrra kosninga. Fimm stjörnu hreyfingin leitaði hins vegar þá til Lýðræðisflokksins, sem var í stjórnarandstöðu, og myndaði með þeim nýja stjórn.


Tengdar fréttir

Di Maio sagður ætla að hætta

Luigi di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu, er sagður ætla að láta af formennsku í Fimm stjörnu hreyfingunni síðar í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.