Sport

Hægt að vinna sér inn ferð til Íslands og tækifæri til að æfa með Söru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir er öflugur sendiherra fyrir íslensku þjóðina þökk sé frábærri frammistöðu hennar í CrossFit.
Sara Sigmundsdóttir er öflugur sendiherra fyrir íslensku þjóðina þökk sé frábærri frammistöðu hennar í CrossFit. Mynd/Instagram/sarasigmunds

Íslandsferð og æfingar með íslensku CrossFit stjörnunni Söru Sigmundsdóttur eru í verðlaun fyrir þá sem vilja taka þátt í leik á Instagram en Sara auglýsir hann sjálf.

„Byrjum árið 2020 með bombu,“ skrifaði Sara í byrjun færslunnar þar sem hún segir frá leiknum.

Verðlaunahafinn mun fá ókeypis flug til Íslands auk fæðis og uppihalds. Þeir fá líka að æfa með Söru og borða með henni hádegismat. Að auki er síðan í boði kynnisferð um íslenska náttúru.

Sara Sigmundsdóttir hefur staðið sig frábærlega á síðustu mótum sínum og verið gjörsamlega óstöðvandi. Hún mætir líka sem stoltur Íslendingur og stolt „Dóttir“ á öll sín mót og flottur sendiherra fyrir íslensku þjóðina nú þegar fylgjendur hennar á Instagram eru komnir yfir 1,6 milljónir.

Það er ljóst á öllu að þessir þrír dagar í mars gætu verið mögnuð upplifun fyrir CrossFit fólk sem hefur áhuga á því að kynnast betur Íslandi og CrossFit menningunni hér á landi.

Það eru CrossFit blaðið Boxrox og næringavöruframleiðandinn Foodspring sem standa fyrir þessum verðlaunaleik og þurfa þátttakendur aðeins að líka við Instagram síður þeirra og segja af hverju þeir eigi að fá þessa ferð.

Tæplega 40 þúsund manns hafa líkað við færslu Söru. Margir hafa einnig skrifað inn skilaboð með von um að verða fyrir valinu. Þar fá bæði Ísland og Sara mikið hrós.

Ein þeirra segir meðal annars að vinkona sín hafi farið að gráta þegar hún sá Söru keppa í eigin persónu og hún geti varla ímyndað sér hvernig væri að fá að kynnast henni enn betur.

Annar tala um það að svona ferð til Íslands hafi verið draumur þeirra lengi á svokölluðum „bucket list“ þeirra.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.