Innlent

Um­boðs­maður krefur dóms­mála­ráð­herra um svör

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um hvort ráðuneyti hennar hafi eða ætli sér að grípa til aðgerða til að bregðast við „þeim vanda er lýtur að meðferð fjölskyldumála hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.“

Í tilkynningu á vef umboðsmanns kemur fram að tilefni fyrirspurnarinnar sé kvörtun sem embættinu hafi borist vegna máls sem hefur verið til meðferðar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í meira ein tvö og hálft ár.

„Að mati sýslumannsembættisins sjálfs er óviðunandi bið eftir því að ágreiningsmál fái umfjöllun þar,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að í bréfi umboðsmanns til ráðherra sé meðal annars bent á að málaflokkurinn varði mannréttindi og verulega persónulega hagsmuni barna og foreldra. Tafir á málum sem slíkum geti, eftir atvikum, falið í sér brot á réttinum til fjölskyldulífs, en sá réttur er stjórnarskrárvarinn.

„Hyggist ráðuneytið ekki grípa til einhverra aðgerða vegna stöðu mála óskar umboðsmaður eftir að það skýri ástæður þess og lýsi afstöðu sinni til þess hvort það samrýmist yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.“

Þá segir einnig í tilkynningunni að óskað hafi verið eftir því að ráðuneytið upplýsi um hvort brugðist hafi verið við kvörtunum vegna tafa á þinglýsingum og skráningu skjala hjá sama sýslumannsembætti.

Beiðnin er sett fram til þess að geta metið hvort tilefni sé til þess að taka fyrrnefnda þætti í stjórnsýslu sýslumannsembættisins til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar umboðsmanns. Svara frá ráðuneytinu er óskað eigi síðar en 7. febrúar næstkomandi.

Hér má nálgast bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra í heild sinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.