Innlent

Vill skoða hvort beita ætti sektum þar sem brunavörnum er ábótavant

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu vill skoða hvort beita ætti sektum þar sem brunavörnum er ábótavant.

Karlmaður á sjötugsaldri sem grunaður er um að hafa kveikt í húsi að Bræðraborgarstík í lok júní var í vikunni úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 8. september að kröfu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.

Í kjölfar brunans upphófst mikil umræða um brunavarnir og bágan aðbúnað margra sem búa í gömlu- og jafnvel ósamþykktu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Til skoðunar er hvort breyta þurfi regluverki. Slökkviliðsstjóri vill skoða möguleikann á því að hægt verði að beita sektum.

„Dæmi, ef þú átt að vera með brunaviðvörunarkerfi í húsinu. Það er skylda að hafa það. Þá áttu að vera með reglubundið eftirlit með því. Ef þú ert ekki með það gæti það þá þýtt sekt. Það er í mínum huga ekkert léttvægara brot en að brjóta til dæmis umferðarreglur,“ sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vinnur nú að úttekt í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg.

„Þar er staðan sú að það er að vænta niðurstaða á haustmánuðum. Veit ekki nákvmælega hvar þetta er statt en vonandi koma niðurstöður því fyrr því betra,“ sagði Jón Viðar.

Aðspurður hverju sé helst tekið eftir í úttektinni segir hann að spurningar hafi vaknað um brunavarnir á leigumarkaði.

„Hvernig tæklum við leigumarkaðinn. Langtímaleigu, skammtímaleigu. Það er ágætis umgjörð í kringum gistiheimili og hótel er langtímaleiga kannski öðruvísi vaxin heldur en gistiheimili.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×