Sport

Landsliðsmenn kynntu fimleika með stæl - Mögnuð stökk út í sjó og ár

Sindri Sverrisson skrifar
Karlalandsliðið í hópfimleikum fór í eftirminnilega hringferð.
Karlalandsliðið í hópfimleikum fór í eftirminnilega hringferð. mynd/@fimleikarfs

Jökulsárlón, höfnin á Höfn í Hornafirði, og Eyvindará við Egilsstaði voru meðal viðkomustaða karlalandsliðs Íslands í hópfimleikum sem sýndi mögnuð tilþrif á hringferð sinni um landið í júlí.

Hringferðin var hluti af verkefninu „Fimleikar fyrir stráka“ en landsliðið heimsótti sjö bæi á landinu, sýndi listir sínar og bauð svo ungum sem öldnum að prófa fimleika. Hópurinn fór á Akranes, Stykkishólm, Hvammstanga, Akureyri, Húsavík, Egilsstaði og Höfn en varð að hætta við viðburð á Selfossi vegna samkomutakmarkana sem tekið höfðu gildi.

„Við byrjuðum um áramótin með opnar æfingar fyrir stráka einu sinni í mánuði, og höfðum fengið 130 stráka á fyrstu tvær æfingarnar sem var langt fram úr okkar björtustu vonum. Við ætluðum svo að vera á Akureyri í mars en þurftum að hætta við vegna samkomubannsins. Eftir að hafa hugsað málið ákváðum við svo að fara í hringferð í sumar, með okkar bestu landsliðsstráka, og náðum að vera með sjö sýningar,“ segir Magnús Óli Sigurðsson, einn af forkólfum verkefnisins.

Eins og fyrr segir fengu krakkar, sem og fullorðnir, að prófa fimleikaáhöldin eftir hverja sýningu.

„Við fengum bara jákvæð viðbrögð frá öllum. Þeim fannst þetta ótrúlega gaman. Við erum að reyna að breyta ímyndinni fyrir þá sem vita ekkert um fimleika og senda manni einhver skilaboð og spyrja hvort það sé gaman að „dansa með borða“. Við viljum sýna hvað við erum í alvörunni að gera. Þetta eru stór og erfið stökk, og íþróttin er á háu stigi á Íslandi,“ segir Magnús Óli.

Strákarnir nýttu líka áhöldin til að leika alls konar listir í náttúru Íslands – stukku til að mynda með tilþrifum út í Eyvindará, Lónsá á Langanesi og höfnina á Höfn, og sýndu glæsitilþrif með Jökulsárlón og Ásbyrgi í baksýn svo fátt eitt sé nefnt.

„Við vorum með kerru með risastórum loftdýnum, trampólíni og fleiru, og tókum upp fullt af efni af okkur að stökkva á alveg geggjuðum stöðum. Við fengum meðal annars leyfi frá þjóðgarðinum til að stökkva í Ásbyrgi og Jökulsárlóni og það var alveg klikkað flott,“ segir Magnús Óli.

Aðspurður hvort menn hefðu komist ómeiddir frá ferðinni – trampólínstökkum út í ár og sjó – sagði hann léttur í bragði að það hefði að mestu tekist. Og markmiðið er nú að gera hringferðina að árlegum viðburði: „Þetta var mikil keyrsla og menn voru alveg þreyttir, en þetta var ótrúlega gaman.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.