Erlent

Ósátt við að Bandaríkin reyni að stýra ferðinni hjá WHO

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðræður um umbætur á WHO hafa staðið yfir í fjóra mánuði. Tilraunir Bandaríkjanna til að reyna að ráða ferðinni þrátt fyrir að þau ætli að segja sig frá stofuninni á næsta ári féllu ekki í kramið hjá Frökkum og Þjóðverjum.
Viðræður um umbætur á WHO hafa staðið yfir í fjóra mánuði. Tilraunir Bandaríkjanna til að reyna að ráða ferðinni þrátt fyrir að þau ætli að segja sig frá stofuninni á næsta ári féllu ekki í kramið hjá Frökkum og Þjóðverjum. Vísir/EPA

Frakkar og Þjóðverjar hafa sagt sig frá viðræðum um umbætur á Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Tilraunir fulltrúa Bandaríkjastjórnar til þess að stýra viðræðum þrátt fyrir að hún ætli að segja sig frá stofnunni eru sagðar fara fyrir brjóstið á ríkjunum.

Bandaríkjastjórn tilkynnti WHO um að hún ætli að segja sig frá stofnuninni í júlí. Uppsögnin tekur gildi í júlí á næsta ári. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sakað WHO um að vera undir hæl kínverskra stjórnvalda og að hafa gert mistök í viðbrögðum við kórónuveiruheimsfaraldrinum. Stjórnendur WHO hafna þeim fullyrðingum hans.

Þrátt fyrir að Bandaríkin séu á útleið hafa fulltrúar þeirra reynt að stýra viðræðunum. Þær tilraunir hafa farið öfugt ofan í sum Evrópuríki. Trump-stjórnin er sögð hafa stefnt að því að leggja fram sameiginleg stefnu um breytingar í september, tveimur mánuðum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Heilbrigðisráðuneyti Frakklands og Þýskalands staðfesta við Reuters-fréttastofuna að ríkin séu andsnúin því að Bandaríkin hafi forgöngu um viðræðurnar þegar þau ætla að segja skilið við stofnunina.

„Enginn vill láta draga sig inn í umbótaferli og taka svo við línunni um það frá landi sem var sjálft að ganga úr WHO,“ hefur Reuters eftir hátt settum evrópskum embættismanni sem tekur þátt í viðræðunum.

Evrópuríki hafa einnig gagnrýnt störf WHO en ekki gengið eins langt og Bandaríkjastjórn. Drög að breytingum sem bandarísk stjórnvöld lögðu fram voru af mörgum ríkjum talin of gagnrýnin á WHO og jafnvel „dónaleg“. Sum Evrópuríkin telja að telja að gagnrýni Trump á WHO sé ætlað að dreifa athyglinni frá hans eigin mistökum í viðbrögðum við faraldrinum í aðdraganda forsetakosninga í haust.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.