Erlent

Ósátt við að Bandaríkin reyni að stýra ferðinni hjá WHO

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðræður um umbætur á WHO hafa staðið yfir í fjóra mánuði. Tilraunir Bandaríkjanna til að reyna að ráða ferðinni þrátt fyrir að þau ætli að segja sig frá stofuninni á næsta ári féllu ekki í kramið hjá Frökkum og Þjóðverjum.
Viðræður um umbætur á WHO hafa staðið yfir í fjóra mánuði. Tilraunir Bandaríkjanna til að reyna að ráða ferðinni þrátt fyrir að þau ætli að segja sig frá stofuninni á næsta ári féllu ekki í kramið hjá Frökkum og Þjóðverjum. Vísir/EPA

Frakkar og Þjóðverjar hafa sagt sig frá viðræðum um umbætur á Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Tilraunir fulltrúa Bandaríkjastjórnar til þess að stýra viðræðum þrátt fyrir að hún ætli að segja sig frá stofnunni eru sagðar fara fyrir brjóstið á ríkjunum.

Bandaríkjastjórn tilkynnti WHO um að hún ætli að segja sig frá stofnuninni í júlí. Uppsögnin tekur gildi í júlí á næsta ári. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sakað WHO um að vera undir hæl kínverskra stjórnvalda og að hafa gert mistök í viðbrögðum við kórónuveiruheimsfaraldrinum. Stjórnendur WHO hafna þeim fullyrðingum hans.

Þrátt fyrir að Bandaríkin séu á útleið hafa fulltrúar þeirra reynt að stýra viðræðunum. Þær tilraunir hafa farið öfugt ofan í sum Evrópuríki. Trump-stjórnin er sögð hafa stefnt að því að leggja fram sameiginleg stefnu um breytingar í september, tveimur mánuðum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Heilbrigðisráðuneyti Frakklands og Þýskalands staðfesta við Reuters-fréttastofuna að ríkin séu andsnúin því að Bandaríkin hafi forgöngu um viðræðurnar þegar þau ætla að segja skilið við stofnunina.

„Enginn vill láta draga sig inn í umbótaferli og taka svo við línunni um það frá landi sem var sjálft að ganga úr WHO,“ hefur Reuters eftir hátt settum evrópskum embættismanni sem tekur þátt í viðræðunum.

Evrópuríki hafa einnig gagnrýnt störf WHO en ekki gengið eins langt og Bandaríkjastjórn. Drög að breytingum sem bandarísk stjórnvöld lögðu fram voru af mörgum ríkjum talin of gagnrýnin á WHO og jafnvel „dónaleg“. Sum Evrópuríkin telja að telja að gagnrýni Trump á WHO sé ætlað að dreifa athyglinni frá hans eigin mistökum í viðbrögðum við faraldrinum í aðdraganda forsetakosninga í haust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×