Erlent

Spánverjar biðla til Breta að afnema sóttvarnareglur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Pedro Sanchez á blaðamannafundi í upphafi mánaðar.
Pedro Sanchez á blaðamannafundi í upphafi mánaðar. Getty/Eduardo Parra

Forsætisráðherra Spánar hvetur bresk stjórnvöld til að endurskoða nýjustu sóttvarnaráðstafanir sínar. Fyrirvaralaus ákvörðun þeirra um að krefjast tveggja vikna sóttkvíar við komuna til Bretlands frá Spáni kom flatt upp á ferðaþjónustuna og ferðalanga. Utanríkisráðherra Breta sagði um helgina, morguninn eftir að nýju reglurnar tóku gildi, að nauðsynlegt hafi verið að grípa til ákvörðunarinnar sökum snarpar fjölgunar kórónuveirusmitaðra á Spáni síðustu daga.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, segir hins vegar að ferðalangar séu öruggari í flestum ríkjum Spánar en í Bretlandi. Staðan er einna verst í Katalóníu, ekki síst í Barcelona, þar sem búið er að innleiða samkomuhöft sambærileg þeim sem voru við lýði meðan neyðarástands vegna veirunnar naut við. Búið er að loka skemmtistöðum, leyfilegur viðskiptavinafjöldi veitingastaða hefur verið lækkaður og íþróttaiðkun takmörkuð.

Sánchez segir að stjórnvöld á Spáni og Bretland reyni nú að finna sameiginlega lausn á málinu. Ekki aðeins standi tveggja vikna sóttkvíin í Spánverjum heldur jafnframt að Bretar hafi verið hvattir til að sleppa öllum ónauðsynlegum ferðum til Spánar. Bretar eru mikilvægir spænskri ferðaþjónustu en þeir gera sér um 18 milljón ferðir til Spánar árlega. Spánn er þannig vinsælasti áfangastaður Breta. Þar að auki eru um 250 þúsund Bretar með varanlega búsetu á Spáni.

Ekki hefur þó annað heyrst frá breskum stjórnvöldum en að nýju sóttvarnaráðstafanirnar séu ekki á förum strax. Þarlendi Verkamannaflokkurinn hefur hins vegar gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir ruglingsleg fyrirmæli og ákvarðanafælni í faraldrinum.

Spænski forsætisráðherrann segir að ákvörðun breskra stjórnvalda hafi verið mistök. Þegar litið sé til landsins í heild megi aðeins segja að ástandið sé slæmt í tveimur fylkjum Spánar, Katalóníu og Aragón. Þar greinist 64,5 prósent allra smita en annars staðar á Spáni séu minni líkur á smiti en á Bretlandseyjum. Þá sé enn minni smithætta á Mallorca og Kanaríeyjum.

Sem stendur eru 35,1 smit á hverja 100 þúsund íbúa á Spáni en 14,7 smit á Bretlandi, samkvæmt nýjustu tölum evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×