Innlent

Álit EFTA bendir til að Vegagerðin hafi brotið lög um opinber innkaup

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá dómsal í EFTA-dómstólnum í Lúxemborg.
Frá dómsal í EFTA-dómstólnum í Lúxemborg.

Skilningur kærunefndar útboðsmála á eðli samnings sem Vegagerðin bauð út í fyrra var staðfestur í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í dag. Álitið bendir til þess að Vegagerðin hafi brotið lög um opinber innkaup með því að auglýsa útboðið ekki á EES-svæðinu.

Forsaga málsins er sú að Vegagerðin bauð út framleiðslu á efni úr námu nálægt Fossamelum í mars í fyrra. Þróttur ehf. átti lægsta boðið og tók Vegagerðin því. Tak-Malbik ehf., sem átti næstlægsta boðið, mótmælti ákvörðuninni um að boði Þróttar yrði tekið og fullyrti að það boð hefði ekki uppfyllt almennar kröfur innkaupaferlisins og væri því ógilt.

Innkaupaferlið var stöðvað sjálfkrafa þegar Tak-Malbik kærði útboðið til kærunefndar útboðsmála. Nefndin óskaði í kjölfarið eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um hvort útboðstilkynningin hefði verið birt innan EES og ef ekki á hvaða forsendum.

Afstaða Vegagerðarinnar var að um verksamning hefði verið að ræða sem væri undir viðmiðunarfjárhæð fyrir útboðsskyldu innan EES. Kærunefndin taldi aftur á móti líkur á að Vegagerðin hefði brotið lög um opinber innkaup þar sem að um þjónustusamning hefði verið að ræða og upphæðin hefði verið yfir viðmiðunarfjárhæð fyrir slíka samninga.

Kærunefndin ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til þess að skera úr um hvers konar samning hefði verið að ræða. Það var í fyrsta skipti sem íslensk stjórnsýslunefnd vísaði máli til dómstólsins.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í dag að samningurinn sem Vegagerðin bauð út teljist opinber þjónustusamningur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.