Fótbolti

Ingibjörg valin í lið umferðarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir er frá Grindavík en lék með Breiðabliki áður en hún fór út í atvinnumennsku.
Ingibjörg Sigurðardóttir er frá Grindavík en lék með Breiðabliki áður en hún fór út í atvinnumennsku. Mynd/Instagram síða Vålerenga

Ingibjörg Sigurðardóttir átti mjög góðan leik í vörn Vålerenga þegar liðið vann 2-0 heimasigur á Röa í 2. umferð norsku deildarinnar. Þetta var fyrsti sigur Vålerenga liðsins á leiktíðinni.

Ingibjörg lagði líka upp annað mark Vålerenga í leiknum og þessi góða frammistaða hennar skilaði henni inn í opinbert lið umferðarinnar sem er valið af norsku deildinni í samvinnu við fréttastofuna Norsk Telegrambyrå.

Seinna mark Vålerenga í leiknum kom eftir horn en Ingibjörg skallaði þá boltann til Dejönu Stefanovic sem innsiglaði sigurinn af stuttu færi.

Allir leikmenn fá einkunn fyrir frammistöðu sína í leikjunum og út frá því er síðan valið úrvalslið. Ingibjörg fékk sjö í einkunn og aðeins tveir leikmenn voru hærri en hún. Með henni í vörninni voru tveir leikmenn frá Klepp og einn frá Lilleström.

Liðsfélagi Ingibjargar, Serbinn Dejana Stefanovic, var einnig valin í úrvalsliðið. Rosenborg átti flesta leikmenn eða fjóra en þeir voru allir á miðjunni eða frammi.

Ingibjörg Sigurðardóttir er 22 ára gömul og á sínu fyrsta tímabili hjá norska félaginu Vålerenga eftir að hafa spilað þar áður í tvö tímabil með Djurgården í Svíþjóð.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.