Íslenski boltinn

Hefna Blikar eina tapsins síns í næstum því tvö ár?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkiskonur hafa ekki enn tapað leik á árinu 2020.
Fylkiskonur hafa ekki enn tapað leik á árinu 2020. vísir/daníel

Sex leikir fara fram í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í kvöld. Leikur Fylkis og Breiðabliks, sem hefst klukkan 20:00, verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þessi lið mættust einnig í Árbænum í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fyrra. Fylkiskonur unnu þá 1-0 sigur. Kristín Þóra Birgisdóttir skoraði eina mark leiksins skömmu fyrir hálfleik.

Fylkir var eina íslenska liðið sem vann Blika á síðasta tímabili. Þrátt fyrir að hafa ekki orðið Íslandsmeistari tapaði Breiðablik ekki leik í Pepsi Max-deild kvenna. 

Liðið vann fimmtán af átján leikjum sínum og gerði þrjú jafntefli. Valur gerði enn betur, vann sextán leiki og gerði tvö jafntefli, og vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan 2010.

Bæði Breiðablik og Fylkir eru nýkomin úr sóttkví og þar leiðandi nýbyrjuð að æfa aftur. Bæði lið spiluðu síðast þriðjudaginn 23. júní.

Breiðablik og Fylkir eru bæði ósigruð í Pepsi Max-deildinni í sumar. Blikar hafa unnið alla þrjá leiki sína með markatölunni 11-0. Fylkiskonur hafa unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli.

Meðal annarra leikja í kvöld má nefna að bikarmeistarar Selfoss sækja Stjörnuna heim. Þegar liðin mættust í Pepsi Max-deildinni í síðustu viku unnu Selfyssingar 1-4 sigur.

Íslandsmeistarar Vals fá ÍBV í heimsókn klukkan 18:00. Valskonur unnu 1-3 sigur á Eyjakonum á Hásteinsvelli í síðustu viku.

Þá mætast Þróttur og FH, nýliðarnir í Pepsi Max-deildinni, í annað sinn á fimm dögum. Á mánudaginn unnu Þróttarar 1-2 sigur á FH-ingum í Kaplakrika.

Sextán liða úrslitunum lýkur á morgun með tveimur leikjum. Þór/KA fær Keflavík, topplið Lengjudeildarinnar, í heimsókn í beinni á Stöð 2 Sport og ÍA og Augnablik eigast við á Akranesi. 

Eftir leik Þórs/KA og Keflavíkur, klukkan 18:00, verður dregið í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins í beinni á Stöð 2 Sport og Vísi.

16-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna

Föstudagur 10. júlí

  • Kl. 18:00 Valur - ÍBV
  • Kl. 19:15 KR - Tindastóll
  • Kl. 19:15 Þróttur - FH
  • Kl. 19:15 Stjarnan - Selfoss
  • Kl. 20:00 Fylkir - Breiðablik (beint á Stöð 2 Sport)
  • Kl. 20:15 Haukar - Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir

Laugardagur 11. júlí

  • Kl. 16:00 Þór/KA - Keflavík (beint á Stöð 2 Sport)
  • Kl. 16:15 ÍA - AugnablikFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.