Íslenski boltinn

Framkvæmdastjóri KA vonast eftir nýjum heimavelli í síðasta lagi árið 2024

Ísak Hallmundarson skrifar

„Völlurinn var ekki upp á sitt besta í gær, það eru margar ástæður fyrir því en kannski sú helsta að hér var búið að spila 200 leiki á N1 mótinu daganna á undan,“ sagði Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA í viðtali við Stöð 2 en mikið hefur verið rætt um ástand Greifavöllsins, þar sem KA spilar heimaleiki sína, undanfarið og sagði Óskar Hrafn þjálfari Breiðabliks undirlag vallarins það versta í efstu deild í Evrópu.

Það eru auðvitað alltaf tvö lið á vellinum og KA er kannski það lið sem tapar mest á þessu ástandi þar sem þeir spila heimaleiki sína þar.

„Við höfum misst Hallgrím og svo auðvitað fá Blikar jöfnunarmarkið þegar Hrannar rennur og þeir fá víti, þannig Blikarnir fara glaðir heim með völlinn í gær,“ sagði Sævar.

KA hóf viðræður við Akureyrarbæ fyrst árið 2007 um nýjan heimavöll og vonast Sævar eftir því að sá völlur verði tilbúinn sem fyrst.

„Við viljum flytja okkur alfarið upp á KA-svæði með heimavöll og í dag er staðan þannig að við erum í viðræðum við Akureyrarbæ og sjáum vonandi nýjan heimavöll á næstu tveimur til fjórum árum á KA-svæði.“

Aðspurður segir Sævar það ekki koma til greina að KA spili heimaleiki sína á heimavelli Þórs.

„Ég held að KA-menn séu þannig að þeir vilji spila á sínum heimavelli og það sé okkar lausn. Við gerum okkur vonir um að í síðasta lagi 2024 verði nýr heimavöllur klár en vonandi náum við eitthvað að flýta þeirri tímalínu og fá hann aðeins fyrr.“

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum efst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×