Erlent

Ennio Morricone er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ennio Morricone á verðlaunahátíð í Mílanó á Ítalíu á síðasta ári.
Ennio Morricone á verðlaunahátíð í Mílanó á Ítalíu á síðasta ári. Getty

Ítalska tónskáldið Ennio Morricone er látinn, 91 árs að aldri.

Morricone er fyrst og fremst þekktur fyrir að hafa samið tónlista við fjölda kvikmynda og vann hann til Óskarsverðlauna árið 2016 fyrir tónlistina við The Hateful Eight, kvikmynd Quentin Tarantino, eftir að hafa verið tilnefndur til verðlaunanna fimm sinnum áður. Varð hann þá elsti maðurinn til að vinna til Óskarsverðlauna í „keppnisflokki“, það er þar sem verðlaun fyrir ævistarf eru undanskilin.

Áður hafði hann verið tilnefndur fyrir tónlistina í kvikmyndunum Days of Heaven, The Mission, The Untouchables, Bugsy og Malena, og jafnframt hlotið heiðursverðlaun fyrir ævistarf árið 2007.

Morricone er mögulega þekktastur fyrir tónlistina í spagettívestrum Sergio Leone, þ.á.m. svokallaðri Dollaratrílógíu, þ.e. A Fistful of Dollars frá árinu 1964, For a Few Dollars More frá árinu 1965 og The Good, the Bad and the Ugly frá árinu 1966. Allar skörtuðu þær Clint Eastwood í aðalhlutverki sem „Nafnlausi maðurinn“.

Einnig er tónlist hans úr spagettívestranum Once Upon a Time in the West úr smiðju sama leikstjóra víðþekkt. Leone sagði tónlist Morricone „ómissandi“ og fékk hann iðulega til að semja hana áður en upptökur hófust til að geta útfært upptökurnar út frá framlagi tónskáldsins.

Í Róm, heimabæ Morricone, var hann einfaldlega þekktur sem „Maestro“.

Hann samdi tónlist fyrir rúmlega 500 kvikmyndir á ferlinum, þar má til dæmis nefna Cinema Paradiso, The Battle of Algiers, The Thing, The Mission, The Untouchables, Mission to Mars, Bugsy, In the Line of Fire, Ripley's Game og svo The Hateful Eight.

Hér að neðan má heyra lag sem Morricone gerði í samstarfi við Joan Baez árið 1971 fyrir kvikmyndina Sacco & Vanzetti, ásamt fleiri vel þekktum lögum eftir tónskáldið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×