Sport

Keyptu 90 skó­pör fyrir Cross­Fit-með­limi sem styrktu stöðina á tímum kórónu­veirunnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bíllinn troðfullur af skóm.
Bíllinn troðfullur af skóm. mynd/Nathan Black

Nathan Black, CrossFit-eigandi í Fayetteville í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, ákvað að þakka iðkendum stöðvarinnar fyrir hjálpina á tímum kórónuveirunnar og gaf þeim veglega gjöf.

Rúmlega 90 meðlimir afþökkuðu að fá endurgreitt er stöðinni var lokað vegna kórónuveirunnar og héldu áfram að borga sína aðild þrátt fyrir að ekki væri hægt að æfa í stöðinni.

„Við gerðum þetta því meðlimir okkar stóðu með okkur og héldu áfram að borga á meðan ekki var hægt að æfa. Flestir þeirra komu ekki einu sinni á Zoom-æfingarnar okkar en vissu að við gætum ekki opnað án þeirra stuðnings,“ sagði Black sem á stöðina ásamt eiginkonu sinni, Dana Black.

„Þau eru ástæðan fyrir því að við opnuðum okkar eigin rækt. Ef við hefðum ekki þau, þá hefðu þau ekki okkur. Ég sendi á alla og bað um skóstærðina þeirra en flestir bjuggust við sérsniðnum sokkum en ekki skóm. Þau voru í áfalli er þau fengu skóna.“

„Við erum mjög þakklát fyrir þeirra stuðning,“ sagði Black.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×