Erlent

Ný flensuveira í svínum talin geta valdið faraldri

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfundar kínversku rannsóknarinnar leggja til að tafarlaust verði tekin upp eftirlit með útbreiðslu flensuveirunnar í svínum og starfsmönnum svínabúa.
Höfundar kínversku rannsóknarinnar leggja til að tafarlaust verði tekin upp eftirlit með útbreiðslu flensuveirunnar í svínum og starfsmönnum svínabúa. Vísir/EPA

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segist ætla að grandskoða kínverska rannsókn á nýju afbrigði flensuveiru sem fannst í svínum og vísindamenn vara við að hafi burði til að valda heimsfaraldri. Veiran er talin geta borist úr svínum í menn.

Grein um rannsóknina birtist í vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences í gær. Hún greinir frá nýju inflúensuafbrigði í svínum sem fannst í Kína og hefur fengið heitið G4 EA H1N1. Höfundarnir segja að þó að ekki stafi bráð hætta af veirunni strax hafi hún alla burði til að stökkbreytast þannig að hún smitist auðveldlega á milli manna.

Vegna þess að afbrigðið er nýtt eru fólk lítið eða ekki ónæmt fyrir því. Leggja höfundarnir til að grannt verði fylgst með starfsmönnum svínabúa og útbreiðslu veirunnar í svínum nú þegar.

Veirunni svipar til svínaflensunnar sem blossaði upp í heimsfaraldri árið 2009. Hún reyndist síður mannskæð en óttast var í fyrstu, meðal annars þar sem eldra fólk var ónæmt fyrir henni að hluta til. Var það rakið til líkinda svínflensunnar við önnur afbrigði flensu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Christian Lindmeier frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sagði að starfsmenn hennar ættu eftir að leggjast yfir greinina um rannsóknina til að átta sig á hvað væri nýtt við flensuveiruna. Lagði hann áherslu á mikilvægi samstarfs og að fylgst yrði með bústofnum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Þetta undirstrikar einnig að við getum ekki sofið á verðinum gagnvart inflúensu og að við verðum að gæta að okkur og halda áfram eftirlit þrátt fyrir kórónuveiruheimsfaraldurinn,“ sagði Lindmeier.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×