Sport

Fór yfir CrossFit hvirfilbylinn, peningavél eigandans og af hverju Katrín Tanja er hætt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annie Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa báðar orðið tvisvar sinnum heimsmeistarar í CrossFit.
Annie Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa báðar orðið tvisvar sinnum heimsmeistarar í CrossFit. Mynd/Samsett/Instagram

Það hafa verið mikil læti í CrossFit heiminum að undanförnu og í miðjum hvirfilbylnum hefur íslenska CrossFit konan Katrín Tanja Davíðsdóttir farið fyrir þeim hópi sem heimtar breytingar á stjórn samtakanna. Katrín Tanja missti á endanum þolinmæðina á föstudaginn og tilkynnti að hún væri hætt að keppa á mótum á vegum CrossFit samtakanna.

Leifur Geir Hafsteinsson fór ekki aðeins mikinn á knattspyrnuvöllunum hér heima á sínum tíma heldur er hann einn af frumkvöðlunum í CrossFit á Íslandi. Það eru því fáir sem vita betur um hvað málið snýst og geta metið stöðuna í sögulegu samhengi.

Leifur Geir var stofnandi og eins konar guðfaðir fyrstu og elstu CrossFit stöðvar landsins í Sporthúsinu en seldi stöðina fyrir sjö árum og er því „í þokkalegri tilfinningalegri fjarlægð frá atburðarásinni“ eins og hann kemst sjálfur að orði.

Leifur Geir skrifaði mjög athyglisverðan pistil á fésbókarsíðu sinni þar sem hann fer skipulega og mjög skýrt yfir stöðu mála og veltir einnig fyrir sér hvað sé framundan.

Græðir hátt í 10 milljarða á ári

Leifur Geir segir frá því að CrossFit malar gull fyrir eigandann Greg Glassman því allar CrossFit stöðvar heims borga CrossFit höfuðstöðvunum árlegt gjald fyrir það eitt að fá að nota CrossFit vörumerkið í nöfnum stöðvanna. Með yfir fjórtán þúsund virkar stöðvar í heiminum gera það líklegar heildartekjur upp á 30-40 milljónir dollara á ári eða á bilinu 4 til 5,4 milljarða íslenskra króna á ári.

„Hinn megintekjustraumur CrossFit HQ eru námskeiðin, og þá sérstaklega Level 1 námskeiðin, sem eru frábærlega vel útfærð helgarnámskeið og tugir þúsunda sækja á hverju ári. Þátttökugjald er $1000 og CrossFit þjálfurum ber skylda til að sækja þetta námskeið á fimm ára fresti. Samanlagður tekjustraumur þessara tveggja meginpósta er því örugglega á bilinu 50-80 milljónir dollara á ári eða hátt í 10 milljarðar íslenskra króna,“ skrifar Leifur Geir.

CrossFit er ekkert nema vörumerkið

Leifur Geir segir einnig frá því að CrossFit sé ekkert nema vörumerkið og það þýðir að stöðvareigandi getur einfaldlega sagt upp samningnum við CrossFit inc. þegar honum hentar, tekið “CrossFit” úr nafninu sínu, og haldið áfram að þjálfa með nákvæmlega sama hætti og áður.

„Svo lengi sem hann kallar það ekki CrossFit getur enginn sagt neitt. Á undangenginni viku hafa yfir 600 stöðvareigendur gert einmitt þetta, sem meðal annars hefur valdið þeim gríðarskjálfta sem skekur CrossFit-samfélagið,“ skrifar Leifur Geir.

Leifur Geir segir að þessi atburðarás hafi verið fyrirsjáanleg eins og eldgos eins og hann orðar það.

„Í aðra röndina var þetta allt saman agalega heillandi heimur, flott fólk, jákvætt, brosandi og hvetjandi. Skilaboðin voru falleg: Hjálpumst að við að þróa í sameiningu bestu mögulegu leið til að byggja upp hreysti og heilbrigði, höfnum gömlu líkamsræktarvélunum og líkamsdýrkuninni, mælum árangur í því hvað við getum - ekki hvernig við lítum út, ástundum opin samskipti, deilum aðferðum og breytum heiminum. Gott og vel. Þangað til einhver gagnrýndi hugmyndafræðina. Þá var viðkomandi einfaldlega tekinn af lífi, annað hvort af Greg Glassman sjálfum á spjallþráðum eða í tölvupósti, eða skósveinum hans (einn af þeim er núna orðinn forstjóri eftir að Glassman sagði af sér),“ skrifar Leifur Geir.

Greg Glassman, stofnandi CrossFit er orðinn milljarðamæringur.mynd/cbs news

Hefur sjaldan hitt jafn sjarmerandi manneskju

Leifur Geir segir líka frá kynnum sínum af umræddum og umdeildum eiganda CrossFit, Greg Glassman. „Ég hef sjaldan hitt jafn sjarmerandi manneskju. Hann horfði djúpt í augun á mér, vildi vita allt um Ísland, CrossFit Sport, fjölskylduna, hvernig ég væri að upplifa leikana o.s.frv. Með öðrum orðum, hann hafði ekkert fyrir því að láta mér líða eins og ég væri mikilvægasta manneskjan í heiminum - og ég fékk aldrei á tilfinninguna að hann væri að sýnast. Þvert á móti fannst mér hann alveg einlægur í áhuga sínum. Og þá hugsaði ég “nú skil ég hvers vegna þessi maður laðar að sér alla þessa fylgjendur,“ skrifar Leifur Geir en hann segir líka frá því að Glassman sé maður sem á á sér að minnsta kostitvær mjög ólíkar hliðar.

„Í aðra röndina er hann þessi klári, heillandi, sjarmerandi maður sem svífst einskis til að bjarga heiminum frá krónískum sjúkdómum, vílar ekki fyrir sér að hjóla í gosdrykkjaframleiðendur fyrir að rústa heilsu mannkyns og fleira. Auk þess má hann ekkert aumt sjá,“ skrifar Leifur Geir en bætir svo við: „Í hina röndina er hann hálfgerður frjálshyggjuofstækismaður, boðberi alls konar samsæriskenninga og rugls, til að mynda um hnattræna hlýnun sem hann er sannfærður um að sé bölvuð vitleysa. Hann er hvatvís, ofstækisfullur í viðbrögðum og svo mælskur að hann jarðar hvern sem er í kappræðum, vogi sér einhver að tala á móti honum,“ skrifar Leifur Geir.

Leifur Geir Hafsteinsson fer líka yfir það af hverju Katrín Tanja Davíðsdóttir ákvað endanlega að snúa baki við CrossFit leikunum í ár.

Niðurlagði og áreitti kvenkyns starfsmenn

„Það nýjasta, óþægilegasta, og það eina sem hefur komið mér raunverulega á óvart í því sem fram hefur komið um Glassman í fréttum undanfarinna daga, er vídeóblog Andy Stumpf sem varð endanlega til þess að Katrín Tanja ákvað að snúa baki við CrossFit leikunum í ár. Andy vann náið með Glassman hjá HQ um árabil, meðal annars sem einkaflugmaður hans, og er því öllum hnútum kunnugur um það sem fór fram bak við tjöldin. Í blogginu heldur hann því fram og rökstyður að ekki bara hafi Glassman ástundað ógnar- og óttastjórnun, þar sem fólk tiplaði á tánum og ástundaði vel launaða jámennsku, heldur hafi hann sýnt af sér kerfisbundna niðurlægjandi og áreitandi hegðun gagnvart kvenkyns starfsmönnum um langt skeið,“ skrifar Leifur Geir.

Leifur Geir endar pistill sinn á því að fara yfir það sem gæti gerst næst. Það má sjá allan pistil hans hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×