Erlent

Styttan af þrælasalanum komin á þurrt land

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Styttan, stuttu áður en henni var steypt í höfnina.
Styttan, stuttu áður en henni var steypt í höfnina. Ben Birchall/AP

Stytta af þrælasalanum Edward Colston, sem mótmælendur í Bristol í Bretlandi rifu niður og hentu í höfn borgarinnar síðastliðinn sunnudag, hefur verið hífð upp úr vatninu. Hún verður ekki sett upp aftur á sama stað og hún stóð áður.

Mótmælendur undir merkjum Black Lives Matter-hreyfingarinnar, sem berst gegn kerfisbundinni kynþáttamismunun, og þá aðallega í Bandaríkjunum, rifu styttuna niður og fleygðu í höfnina. Á myndböndum af atvikinu má heyra gríðarleg fagnaðarlæti þegar styttan var tekin niður og henni fleygt í vatnið.

Borgarráð Bristol-borgar sagði það hafa verið nauðsynlegt að fjarlægja styttuna, svo áfram yrði hægt að vinna við höfnina. Styttan var fjarlægð í skjóli nætur, af ótta við það að draga að sér áhorfendur með þeim afleiðingum að einhver meiddist.

Þá kemur fram í frétt BBC af málinu að styttan verði nú flutt á „öruggan stað.“ Þar verði hún þrifin áður en henni verður komið fyrir á safni.

Styttan var sem áður segir af Edward Colston. Hann var þrælasali sem uppi var á 18. öld. Arfleið hans er áberandi í Bristol, en er þó langt frá því að vera óumdeild.

Colston var meðlimur í Royal African Company sem flutti um 80 þúsund þræla frá Afríku til Bandaríkjanna. Colston auðgaðist mjög á þrælasölunni og eftir andlát hans arfleiddi hann ýmis góðgerðarsamtök að auðæfum hans. Frá andláti hans hefur nafn hans verið áberandi í Bristol og má finna það víða í götunöfnum, minnisvörðum og byggingum.

Borgarstjóri Bristol, Marvin Rees, sagði, áður en styttan var hífð úr höfninni, að hann saknaði styttunnar ekki neitt. Stofnanir og skólar sem hafa kennt sig við Colston, hafa nú tekið til skoðunar að breyta nafni sínu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.