Tíska og hönnun

Snýr aftur til L‘Oreal eftir deilur um rasisma

Sylvía Hall skrifar
Munroe Bergdorf.
Munroe Bergdorf. Vísir/getty

Fyrirsætan Munroe Bergdorf hefur gengið aftur til liðs við snyrtivörurisann L‘Oreal eftir að fyrirtækið sleit samstarfi við hana fyrir tæplega þremur árum síðan vegna ummæla hennar um rasisma. Sagði Bergdorf að allt hvítt fólk væru rasistar og að forréttindi þerira væru byggð á rasísku kerfi.

Bergdorf hefur verið ötull talsmaður jafnréttis og réttinda transfólks og nýtt miðla sína til þess að vekja athygli á rasisma, en hún sjálf er transkona. Var hún jafnframt fyrsta transkonan til þess að verða andlit fyrirtækisins þegar hún var andlit L‘Oreal í Bretlandi.

Þegar mótmælin vestanhafs hófust eftir dauða George Floyd svaraði Bergdorf tísti snyrtivörurisans þar sem hann lýsti yfir stuðningi við baráttu Black Lives Matter hreyfingarinnar. Benti hún á að fyrirtækið hefði slitið samstarfi við hana og „hent henni til úlfanna“ eftir að hún talaði um rasisma og forréttindi hvítra.

Í tilkynningu á Twitter-síðu sinni í dag sagðist hún hafa fundað með nýjum forstjóra L‘Oreal sem hafði samband við hana eftir tístið. Hún hafi beðist afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins og óskað eftir áframhaldandi samstarfi. Þá lofaði fyrirtækið að gefa 25 þúsund pund til samtakanna Mermaids Gender sem aðstoða ungt hinsegin fólk í Bretlandi.

„Sem aktivisti er hluti af starfi mínu að hvetja stór fyrirtæki til þess að átta sig á sinni ábyrgð varðandi fjölbreytileika og jafnrétti. Það er mikilvægt að á öllum sviðum samfélagsins sé fólk frá mismunandi menningarheimum með fjölbreytta reynslu við borðið,“ skrifaði Bergdorf í yfirlýsingu.

Hún hefur því ákveðið að ganga til liðs við L‘Oreal á ný og mun sitja í ráðgjafahópi fyrirtækisins varðandi fjölbreytni. Þannig geti hún nýtt rödd sína til góðs og stuðlað að jákvæðum breytingum. Það sé betra en að halda í reiðina því þannig geti fyrirtækið einnig bætt sig.

„Þó að það sem gerðist fyrir þremur árum síðan var mikið áfall fyrir mig persónulega og starfsframa minn, þá skiptir það mig máli að sitja við borðið til þess að vera rödd fyrir svart fólk, transfólk og hinsegin fólk í tískuiðnaðinum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.