Erlent

Vesturveldi mótmæla tilburðum Kína gagnvart Hong Kong

Kjartan Kjartansson skrifar
Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, á sjónvarpsskjá í Hong Kong. Kínverska þingið samþykkti umdeild þjóðaröryggislög sem eru sögð þrengja að réttindum íbúa sjálfstjórnarsvæðisins.
Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, á sjónvarpsskjá í Hong Kong. Kínverska þingið samþykkti umdeild þjóðaröryggislög sem eru sögð þrengja að réttindum íbúa sjálfstjórnarsvæðisins. Vísir/EPA

Ríkisstjórnir Bretlands, Bandaríkjanna, Ástralíu og Kanada fordæmdu kínversk stjórnvöld vegna nýrra laga sem þau hafa samþykkt sem þrengja að frelsi íbúa Hong Kong. Lögin stangist einnig á við alþjóðlegar skuldbindingar Kína gagnvart sjálfstjórnarsvæðinu.

Yfirlýstur tilgangur svonefndra þjóðaröryggislaga sem kínverska þingið samþykkti er að koma í veg fyrir glæpsamlegt athæfi og hryðjuverkastarfsemi. Mannréttindasamtök hafa hins vegar gagnrýnt lögin og segja þau herða mjög að tjáningarfrelsi í héraðinu. Þannig megi til að mynda ekki vanvirða kínverska þjóðsönginn og þá geta Kínverjar nú komið upp starfsstöðvum fyrir öryggisstofnanir í Hong Kong.

Lögin urðu kveikjan að fyrstu fjöldamótmælunum í Hong Kong í fleiri mánuði, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Í yfirlýsingu vestrænu ríkjanna fjögurra lýsa þau áhyggjum að auk þess að takmarka frelsi Hong Kong-búa grafi lögin undan stöðu héraðsins sem fjármálamiðstöðvar heimsins. Þannig væri grafið undan sjálfstjórn héraðsins og kerfisins sem hafi tryggt því hagsæld í gegnum tíðina.

Þegar Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong árið 1997 gegn skuldbindingu um að íbúum héraðsins yrði tryggt grundvallarfrelsi. Ríkin fjögur segja að þjóðaröryggislögin séu í trássi við þá skuldbindingu.

„Við höfum einnig miklar áhyggjur af því að þessi aðgerð muni ágera djúpan klofning í samfélaginu í Hong Kong sem er þegar til staðar,“ sagði í yfirlýsingu ríkjanna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.