Innlent

Elín hlaut ekki réttláta málsmeðferð vegna hlutafjáreignar hæstaréttardómara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Elín, sem dæmd var í átján mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir umboðssvik og þátttöku í markaðsmisnotkun í svokölluðu Ímon-máli, höfðaði mál gegn ríkinu fyrir MDE meðal annars vegna hlutafjáreignar Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara.
Elín, sem dæmd var í átján mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir umboðssvik og þátttöku í markaðsmisnotkun í svokölluðu Ímon-máli, höfðaði mál gegn ríkinu fyrir MDE meðal annars vegna hlutafjáreignar Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara.

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) dæmdi í morgun íslenska ríkið brotlegt við 1. málsgrein 6. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu í máli Elínar Sigfúsdóttur. Hún var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans á árunum fyrir hrun.

6. greinin kveður á um rétt fólks til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og er í 1. málsgreininni kveðið á um réttláta og opinbera málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól.

Elín, sem dæmd var í átján mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir umboðssvik og þátttöku í markaðsmisnotkun í svokölluðu Ímon-máli, höfðaði mál gegn ríkinu fyrir MDE meðal annars vegna þess að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson, sem dæmdu í máli hennar, áttu hlutafé í Landsbankanum þegar bankinn féll í október 2008. 

Urðu þeir fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess og taldi Elín því að þeir hafi ekki verið óhlutdrægir í málinu. Þá vísaði hún einnig til þess að þriðji dómarinn í málinu, Markús Sigurbjörnsson, hafi ekki heldur verið óhlutdrægur vegna hlutafjáreignar í Glitni. 

MDE gerir ekki athugasemd við hlutafjáreign Eiríks og Markúsar. Markús hafi ekki átt hlutabréf í Landsbankanum og eign Eiríks í bankanum hafi verið óveruleg. 

Hins vegar hafi Viðar Már tapað 8,5 milljónum króna við fall Landsbankans og því megi draga óhlutdrægni hans í efa. Því er það mat MDE að Elín hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

Þá er íslenska ríkið dæmt til þess að greiða Elínu 12 þúsund evrur í bætur vegna málsins sem samsvarar um 1,7 milljón íslenskra króna. Þá er ríkið einnig dæmt til þess að greiða 5000 evrur í málskostnað eða sem samsvarar 700 þúsund krónum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.