Innlent

Miklar hliðstæður milli Íslands og Mars

Una Sighvatsdóttir skrifar
Mars er meðal mest könnuðu reikistjarna í sólkerfinu og undanfarinn áratug hefur þekking okkar á rauðu plánetunni fleygt fram. Þar á meðal hafa vel heppnaðir marsleiðangrar varpað ljósi á stóra jökla bæði á suður- og norðurpólnum og vitnisburði um jarðfræðifyrirbæri sem virðast eiga sér beinar hliðstæður við Ísland.

Um þetta er fjallað á alþjóðlegri ráðsstefnu um heimskautasvæðin á Mars, sem fer nú fram við Háskóla Íslands. Meðal fyrirlesara er dr. Shane Byrne, lektor við háskólann í Arizona.

Sandöldur á Mars eru gerðar úr basaltögnum rétt eins og á Íslandi. Þessi mynd sem tekin var af HiRISE myndavélinni sýnir sandöldur sem eru 1 km háar.NASA/JPL/University of Arizona
Óvíða hægt að rannsaka þetta betur en hér

Dr. Byrne stýrir meðal annars rannsóknum á svo kallaðri HiRISE myndavél sem tekið hefur myndir frá sporbaug um Mars í samvinnuverkefni Arizonaháskóla við Nasa. Hann segir samanburðinn á yfirborði Mars og Íslands gefa gleggri hugmynd um hvað hafi átt sér stað á mars fyrir mörghundruð ármilljónum.

„Það eru ísbreiðurnar, auðvitað, sem svipar til þeirra íslensku en einnig stór flóð eins og jökulhlaupin sem þið hafið hérna. Eldfjöllin eru líka hliðstæður eldfjallanna á mars. Það er mikið samspil á milli hrauns og íss á Mars eins og á Íslandi. Þetta er einn af fáum stöðum í heiminum þar sem hægt er að rannsaka þetta nákvæmlega."

Íshellan á norðurpól Mars er um 1000 km breið og 2-3 km þykk.NASA/JPL/University of Arizona.
Gervigígir greindir vegna þekkingar á Íslandi

Dr. Byrne segir þó varasamt að draga of miklar ályktanir, fyrr en að því kemur að unnt verði að senda geimfara til mars. Enn sé ótalmargt á huldu en rannsóknirnar sýni að mun meiri hræringar séu á yfirborði Mars en áður var talið.

„Skilningur á stöðum eins og Íslandi hjálpar mikið við túlkun gagnanna frá geimförunum. Gervigígarnir sem myndast á Íslandi, þegar hraun rennur yfir ís eða snjó, voru greindir á Mars bara af því að fólki var kunnugt um dæmin frá Íslandi og vissi á hvað það var vað horfa."

Snjóflóð hafa meðal annars verið mynduð á mars. Þessi jökulklumpur sem HiRise myndaði við norðurpólinn er um 800 metra hár.NASA/JPL/University of Arizona.
Miklar rannsóknir framundan

Hann segir rannsóknir á mars sannarlega mjög spennandi svið enda eru framundan miklar áætlanir um frekari rannsóknarleiðangra þangað. 

„Mikilvægt markmið til skemmri tíma er að kanna plánetuna og einhvern tíma að senda menn til mars. Það er mjög hentugt fyrir geimfara að vita hvar ísinn er þegar þeir koma þangað, svo það er mikilvægt að rannsaka pólsvæðin og ísinn á mars út frá því sjónarhorni líka."

Dr. Byrne flytur opið erindi um nýjust rannsóknir á Mars á Háskólatorgi í kvöld klukkan átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×