Sport

Tálausi sparkarinn sem átti metið yfir lengsta vallarmarkið lést af völdum veirunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tom Dempsey átti metið yfir lengsta vallarmark í sögu NFL í 43 ár.
Tom Dempsey átti metið yfir lengsta vallarmark í sögu NFL í 43 ár. vísir/ap

NFL-hetjan Tom Dempsey lést á laugardaginn af völdum kórónuveirunnar, 73 ára að aldri. Hann greindist með veiruna 25. mars.

Dempsey lék í ellefu tímabil í NFL-deildinni með New Orleans Saints, Philadelphia Eagles, Los Angles Rams, Houston Oilers og Buffalo Bills. Hann er í frægðarhöll Saints og var valinn í stjörnuleik NFL 1969, á nýliðaárinu sínu.

Dempsey átti metið yfir lengsta vallarmark í sögu NFL í 43 ár. Í leik Saints og Detroit Lions 8. nóvember 1970 skoraði hann með 63 jarda sparki.

Hann fæddist án fingra á hægri hendi og án táa á hægri fæti. Þrátt fyrir það lék hann stöðu sparkara. 

Dempsey lék í sérstökum tálausum skóm og á sínum tíma var mikið rætt um hvort hann veitti honum ósanngjarnt forskot.  Svo reyndist hins vegar ekki vera.

Met Dempseys yfir lengsta vallarmark í sögu NFL var jafnað þrisvar sinnum og Matt Prater, leikmaður Denver Broncos, sló það loks 8. desember 2013 þegar hann skoraði með 64 jarda sparki.

Síðustu ár ævinnar glímdi Dempsey við Alzheimer-sjúkdóminn og heilabilun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×