Lífið

Erfið fæðing hjá Nönnu gíraffa

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Betur fór en á horfðist í fyrstu þegar gíraffakýrin Nanna í dýragarðinum í Álaborg bar kálf í gær og björguðu snör handtök dýralæknis lífi afkvæmisins. Fæðingin gekk erfiðlega og eftir tveggja tíma streð kom í ljós að staða kálfsins í legi móðurinnar kom í veg fyrir að hann kæmist út. Dýralækninum auðnaðist að snúa dýrinu inni í móðurinni og kom það þá í heiminn skömmu síðar.

Kálfurinn, sem reyndist vera kvendýr, sýndi þó engin lífsmörk fyrst um sinn og þurfti að beita hann hjartahnoði og öðrum lífgunaraðgerðum til að hann hjarnaði við. Um síðir dró þó hið nýborna dýr fyrsta loftið ofan í ung lungu sín og ekki löngu síðar brölti það klaufalega á fætur og saug spena móður sinnar af áfergju.

Haft er eftir starfsmönnum dýragarðsins að mæðgurnar séu nú við bestu heilsu og spóki sig sprækar í vistarverum sínum.

Berlingske Tidende greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.