Fótbolti

FIFA heimtar handabönd fyrir og eftir fótboltaleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franz Beckenbauer.
Franz Beckenbauer. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franz Beckenbauer, nefndarmaður á vegum FIFA, segir sambandið ætla pressa á það að leikmenn heilsist fyrir leiki en handabönd hafa verið mikið í umræðunni eftir að Luis Suarez, leikmaður Liverpool, neitaði að taka í höndina á Patrice Evra, leikmanni Manchester United, fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Evra hafði sakað Suarez um kynþáttaníð og var Úrúgvæmaðurinn dæmdur í átta leikja bann í kjölfarið.Rio Ferdinand neitaði að taka í höndina á Suarez eftir að sá síðarnefndi tók ekki í höndina á Evra. Þetta setti ljótan svip á leikinn og andrúmsloftið milli liðanna varð eldfimmt. Suarez baðst seinna afsökunar á því að hafa ekki heilsað Evra.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé svona og við verðum að koma í veg fyrir að svona gerist," sagði Franz Beckenbauer sem vill líka að liðin komi inn á völlinn og fari útaf honum á sama tíma.

„Ég tel að leikmenn eigi að yfirgefa völlinn á sama hátt og þeir koma inn á hann. Svoleiðis var það þegar ég var ungur. Í leikslok eiga leikmenn að þakka fyrir leikinn og yfirgefa völlinn hlið við hlið. Það er nauðsynlegt fyrir ímynd íþróttarinnar," sagði Beckenbauer.

Beckenbauer er í nefndinni Task Force Football 2014 sem á að reyna að bæta ímynd fótboltans og ýta undir góða íþróttamannslega hegðun inn á vellinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×