Innlent

Lestarrán í Húsdýragarðinum

Lestin í Húsdýragarðinum hefur verið gleðigjafi fyrir yngstu gesti garðsins. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Lestin í Húsdýragarðinum hefur verið gleðigjafi fyrir yngstu gesti garðsins. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Brotist var inn í geymslu Húsdýragarðsins í nótt og lest, sem ferjar að öllu jöfnu yngstu gesti garðsins, var stolið.

Samkvæmt frétt RÚV um málið í kvöld varð næturvörður í garðinum var við unga drengi sem voru að sniglast inn í garðinum. Það var ekki fyrr en um klukkan tvö um nóttina sem hann sá að það var búið að spenna geymslu upp með kúbeini og lestin, sem þar var geymd, var horfin.

Þá var búið að klippa gat á girðingu garðsins og svo virðist sem lestinni hafi verið ekið út um gatið.

Lögreglan var kölluð til vegna þjófnaðarins. Eftir að lögreglan hafði leitað í hverfinu fannst lestin við leikskóla í grennd við húsdýragarðinn.

Lestin var sem betur fer ekki mikið skemmd að sögn Þorkels Heiðarssonar, sviðstjóra hjá Húsdýragarðinum. Hann óskar eftir upplýsingum frá almenningi um lestarránið og heitir hverjum þeim, og fjölskyldu þeirra, sem getur upplýst þennan óvanalega glæp, ókeypis ferð í lestinni.

Að öllu jöfnu er brotist inn í garðinn tíu sinnum á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×