Erlent

Nærri toppi Everest á sjötugsaldri

Breskur ævintýramaður, sem freistaði þess að komast á tind Mount Everest, hæsta fjalls jarðar, eftir að hafa gengið bæði á Norður- og Suðurpólinn, varð frá að hverfa í dag vegna veikinda. Hann var kominn í toppbúðir fjallsins í 8400 metra hæð og lokaorustan átti að hefjast í dag. Það þykir markvert hversu langt Bretinn komst í ljósi þess að hann er á sjötugsaldri og var nær dauða en lífi eftir hjartaáfall fyrir aðeins tveimur árum. Reuters-fréttastofan virtist þó ætla að gera aðeins meiri hetju úr Bretanum aldna en innistæða var fyrir því hún greinir frá því að ef hann hefði komist á topp Everest hefði hann orðið fyrsti maðurinn til að ná því og að ganga á báða pólana. Eins og margir landsmanna vita hins vegar hefur a.m.k. einn maður afrekað það nú þegar, þ.e. Íslendingurinn Haraldur Örn Ólafsson, eins og frægt varð, en greinilega ekki nógu frægt, fyrir nokkrum árum. Harladur gerði reyndar gott betur og gekk á tind hæstu fjalla allra heimsálfanna áður en hann sigraðist á Everest.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×