Fótbolti

AEK fallið úr grísku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
AEK féll í dag úr efstu deild í Grikklandi í fyrsta sinn í sögu félagsins. Það var staðfest þegar að þrjú stig voru dregin af liðinu af aganefnd grísku úrvalsdeildarinnar.

Stuðningsmenn AEK brutu sér nýlega leið inn á völlinn í miðjum leik gegn Panthrakikos og gerðu sig líklega til að valda leikmönnum síðarnefnda liðsins skaða. Þetta gerðist eftir að Panathrakikos komst yfir með slysalegu sjálfsmarki leikmanns AEK.

Leiknum var hætt og AEK dæmt 3-0 tap. Og eftir tíðindi dagsins er ljóst að AEK er fimm stigum frá öruggu sæti þegar aðeins ein umferð er eftir af tímabilinu.

Forráðamenn AEK hafa hins vegar gefið það út að félagið muni leita réttar síns og áfrýja úrskurði aganefndarinnar.

En að öllu óbreyttu verða þeir í næstefstu deild gríska boltans á næsta ári og munu þar að auki byrja tímabilið með tvö stig í mínus.

Eiður Smári Guðjohnsen lék með AEK í fyrra og Arnar Grétarsson var yfirmaður íþróttamála í nokkur ár. Báðir eru nú komnir til Club Brugge í Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×