Innlent

Úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna innbrota

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Alls hafa sjö verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á innbrotahrinunni á höfuðborgarsvæðinu.
Alls hafa sjö verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á innbrotahrinunni á höfuðborgarsvæðinu. VISIR/Hanna
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag fjóra karla í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald. Mennirnir eru í haldi í tengslum við hrinu innbrota á höfuðborgarsvæðinu. Þrír mannanna voru handteknir í síðustu viku, en sá fjórði í lok febrúar.

Lögreglan telur fullvíst að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Á þriggja mánaða tímabili frá desember til febrúar voru tæplega 130 innbrot í heimahús tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í mars hafa 5 innbrot í heimahús verið tilkynnt til lögreglu og lítur því út fyrir að innbrotahrinan sé á enda.

Lögreglan hefur undanfarið gert húsleitir víða á höfuðborgarsvæðinu. Lagt hefur verið hald á mikið af þýfi og hafist handa við að koma því í hendur réttra eigenda. Einnig hefur verið lagt hald á þýfi sem smygla átti úr landi með póstsendingum. Ljóst er að verðmæti þýfisins hleypur á milljónum.

Aðferð þjófanna hefur hvað helst verið að brjótast inn í svefnherbergi fólks að degi til og stela þaðan skartgripum.

Alls hafa sjö verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á innbrotahrinunni. Þar af eru sex í haldi lögreglu en einn karlanna er í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda. Allir eru karlarnir erlendir ríkisborgarar.

Lögregla leggur sem fyrr áherslu á að fólk sé vakandi fyrir umhverfi sínu, hugi vel að öryggi húss síns og tilkynni undarlegar mannaferðir. Gott er að fólk skrifi hjá sér bílnúmer, taki myndir og tilkynni til lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.