Innlent

Þjónustu ekki þröngvað upp á fólk

Stella Víðisdóttir ,sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Stella Víðisdóttir ,sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

,,Þjónustu er ekki þröngað upp á fólk heldur velur fólk það sjálft," segir Stella Víðisdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Einstæður karlmaður á sextugsaldri fannst látinn á heimili sínu í Gaukshólum í Breiðholti í síðustu viku. Maðurinn hafði þá legið dáinn í margar vikur. Málið er ekki einsdæmi og með reglulegu millibili finnast einstaklingar sem legið hafa látnir á heimilum sínum í talsverðan tíma áður en nokkur verður þess var.

Stella segist ekki ræða einstök mál í fjölmiðlum en almennt séð reyni starfsmenn sviðssins og félagsþjónustunar í Reykjavík að koma í veg fyrir atburði af þessu tagi.

Stella segir að borgin bjóði upp á ýmsa þjónustu og þá eigi fólk samkvæmt lögum rétt á ákveðinni þjónustu. Stella segir að það geti til að mynda verið almenn félagsráðgjöf, aðstoð varðandi fjármál og félagsleg heimaþjónusta.

,,Ef fólk er ekki með þjónustu og hefur ekki leitað eftir henni er þetta flóknara. Eðli málsins samkvæmt eigum við erfitt með að átta okkur á þeim sem hugsanlega þurfa þjónustuna nema við fáum ábendingar," segir Stella.

Markvisst er unnið að því efla félagslega öryggisnetið í hverfum borgarinnar, að sögn Stellu sem telur mikilvægt að tengja saman aðila á borð við Rauða krossinn, kirkjuna og heilsugæsluna.

Hafi fólk ábendingar um að það telji ættingja sína eða nágranna þurfa á aðstoð að halda hvetur Stella viðkomandi til að hafa samband við þjónustumiðstöð borgarinnar í viðkomandi hverfi.

Fyrir ári síðan hóf velferðarsvið að heimsækja alla 80 ára og eldri sem ekki nýta sér þjónustu hjá borginni. Með bréfi og heimsókn er þeim kynnt sú þjónusta og aðstoð sem borgin býður upp á. Að mati Stellu hefur átakið gefist það vel að sviðið telur mikilvægt að því verði haldið áfram.








Tengdar fréttir

Lá dáinn í margar vikur

Einstæður karlmaður á sextugsaldri fannst látinn á heimili sínu í Gaukshólum í Breiðholti í síðustu viku. Maðurinn hafði þá legið dáinn í margar vikur. DV greinir frá málinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×