Innlent

Hagkaup innkallar gölluð kerti

Kertin fást einnig silfruð og rauð.
Kertin fást einnig silfruð og rauð.

Hagkaup hefur innkallað, vegna galla, kertalínu sem fengist hefur í verslunum fyrirtækisins frá því í október 2008. Um er að ræða sex gerðir kerta í þremur litum; gyllt, silfruð og rauð. Yfirborð kertanna er eins og alsett litlum kúlum með glimmer-áferð.

Í tilkynningu frá Hagkaupi segir að tilkynnt hafi verið um tvö tilvik þar sem gallans hefur orðið vart en sökum þeirrar hættu sem getur stafað af vörunni óskar Hagkaup eftir að viðskiptavinir skili henni umsvifalaust. Gallinn er sagður lýsa sér þannig að þegar kveikt er á gölluðu kerti brennur það í 1-2 klukkutíma án þess að nokkuð virðist vera að. Kveikurinn brennur hins vegar ekki upp og stækkar því eftir því sem kertið brennur lengur. Þegar kertið hefur brunnið í 1-2 klukkustundir magnast eldurinn þannig að hætta getur stafað af.

„Nauðsynlegt er að taka þessi kerti umsvifalaust úr umferð og skila þeim strax til þjónustuborðs í næstu verslun Hagkaups gegn fullri endurgreiðslu eða farga þeim með öruggum hætti," að því er segir í tilkynningunni.

Nánari upplýsingar er að finna á www.hagkaup.is/innkollun, en þar má sjá upplýsingar um strikamerki, verð og fleira. Einnig er hægt að hafa samband við skiptiborð Hagkaups í síma 563-5000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×