Innlent

Öll olíufélögin búin að lækka verð

Mynd/Vísir.

Olíufélögin hafa öll lækkað verð hjá sér í dag.

N-1 reið á vaðið og lækkaði bensínlítrann um tvær krónur og dísillítrann um þrjár krónur. Þetta er fjórða lækkunin hjá félaginu á einni viku og hefur bensínlítrinn lækkað um 41 krónu og dísillítrinn um 36 krónur frá því í byrjun október, þegar verðið var í hámarki.

Hin olíufélögin hafa öll lækkað verð sín um sömu krónutölu í dag. Olíuverð fer lækkandi á heimsmarkaði og auk þess er krónan að styrkjast, en báðir þessir þættir skapa svigrúm til olíulækkunar hér á landi.

Ódýrastur er bensíndropinn á mannlausu stöðvunum. Hjá Egó kostar lítrinn 135,1 krónu, og á svipuðu róli eru Orkan og Atlantsolía þar sem hann kostar 135,2 krónur. Stöðvarnar þrjár bjóða einnig ódýrustu díselolíuna, á tæpar 162 krónur lítrann. Afslættir eru víða gefnir af þessum verðum. Sem dæmi er bensínlítrinn kominn niður fyrir 130 krónur hjá Orkunni í Kænunni í Hafnarfirði, en díselolían kostar þar tæpar 157 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×