Innlent

Ráðherra segir Jafnréttisstofu ekki hafa nóg fjármagn

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Jafnréttisstarf þarf ekki og á ekkert frekar að eiga lögheimili í Reykjavík en annars staðar á landinu.
Jafnréttisstarf þarf ekki og á ekkert frekar að eiga lögheimili í Reykjavík en annars staðar á landinu. VÍSIR/VILHELM
„Jafnréttisstarf þarf ekki og á ekkert frekar að eiga lögheimili í Reykjavík en annars staðar á landinu,“ segir Eygló Harðardóttir, velferðarráðherra um gagnrýni á staðsetningu Jafnréttisstofu sem er á Akureyri.

„Jafnréttisstofa er agnarlítil stofnun, staðsett norður í landi,“ sagðiGyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði, í þættinum Stóru málin á Stöð 2 í síðustu viku.

Hún telur það veikja stofnunina að vera staðsett á Akureyri, meðal annars vegna þess að stofnanir sem Jafnréttisstofa þarf að eiga í samskiptum við, eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við getum velt því fyrir okkar hvaða áhrif það hefði til dæmis ef Neytendastofa, Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og Umboðsmaður Alþingis væru staðsett norður í landi,“ sagði Gyða Margrét.

Að mati Eyglóar vinnur starfsfólk Jafnréttisstofu mjög gott starf og vel hafi tekist til að gera málaflokkinn sýnilegan og skapa mikilvæga umræðu í samfélaginu. „Ég fæ því ekki séð að staðsetning Jafnréttisstofu á Akureyri standi starfseminni fyrir þrifum,“ segir Eygló.

Hart hafi verið gengið í niðurskurði til stofnunarinnar

Jafnréttisstofa virðist ekki hafa burði til þess að sinna hlutverki sínu að því er fram kom í máli Gyðu Margrétar enda sé stofnunin bæði fjársvelt og mannsvelt.

Eygló telur það rétt að Jafnréttisstofa hafi ekki nóg fjármagn til að sinna öllum verkefnum sínum eins og til er ætlast. Mjög hart hafi verið gengið í niðurskurði fjárveitinga til stofnunarinnar, líkt og til fjölmargra annarra stofnana, vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×