Enski boltinn

Southgate veit að staða hans er ekki örugg

Elvar Geir Magnússon skrifar
Margir hafa lítið álit á Gareth Southgate sem knattspyrnustjóra.
Margir hafa lítið álit á Gareth Southgate sem knattspyrnustjóra.

Gareth Southgate, knattspyrnustjóri Middlesbrough, segist vita að staða hans hjá félaginu er ekki örugg og að hann þurfi að fara að hala inn stigum. Liðinu hefur gengið illa og tapaði um helgina 3-0 fyrir Aston Villa.

Það er aðeins markatalan sem bjargar því að Middlesbrough sé ekki í fallsæti. Steve Gibson, stjórnarformaður Middlesbrough, hefur oft lýst yfir stuðningi sínum við Southgate sem hefur verið í þessu starfi síðustu átján mánuði.

„Ég fæ mikinn stuðning frá stjórninni og er ákveðinn í því að endurgjalda þetta traust. Ég veit að þrátt fyrir þennan stuðning þá er staða mín auðvitað ekki örugg. Þetta snýst um að ná hagstæðum úrslitum og það þarf ég að gera," segir Southgate.

„Það gengur ekki vel hjá okkur um þessar mundir en sem betur fer þá á það sama við um liðin í kringum okkur. Ég hef verið í kringum fótboltann í tuttugu ár og margoft hef ég orðið reiður. Eitt af þeim skiptum var um helgina."

Southgate segist vera langt frá því að leggja árar í bát og er ákveðinn í að ná að snúa við gengi liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×