Innlent

Þingeyingar og Skagfirðingar segja grafið undan búsetu í héruðunum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Niðurskurður heilbrigðisstofnana á Húsavík og Sauðárkróki er í raun ákvörðun um að leggja af sjúkrahúsþjónustu í Þingeyjarsýslum og Skagafirði, að mati sveitarstjórnarmanna þessara héraða, sem telja að verið sé að kippa enn einni stoðinni undan búsetu á landsbyggðinni.

Aðför að landsbyggðinni, stóð á spjöldum þegar yfir þúsund manns mættu í íþróttahúsið á Húsavík í október fyrra til að mótmæla niðurskurði. Nú á aftur að skera niður, um níu prósent, og segjast ráðamenn í Þingeyjarsýslum horfa fram á 33 prósenta niðurskurð á fjórum árum. Ráðamenn í Skagafirði sjá fram á sambærilegan niðurskurð.

Þeir Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar, lýstu afleiðingunum í viðtali í fréttum Stöðvar 2. Þeir greindu frá því hvernig sjúkrahúsþjónusta er að leggjast af. Eftir verði aðeins heilsugæsla. Það geti menn ekki sætt sig við. Þetta þýði verri lífskjör íbúa þessara héraða þegar þjónustan flyst til Akureyrar og Reykjavíkur. Störfum háskólamenntaðra fækki og einnig sé verið að fækka kvennastörfum, en það sé sérlega bagalegt. Þeir benda á að góð heilbrigðisþjónusta sé stór þáttur í vali fólks á búsetu.

Þingeyingar minna á fimm mánaða gamla yfirlýsingu þar sem ríkisstjórnin lofar að standa vörð um opinbera þjónustu á svæðinu. Í viljayfirlýsing ríkisstjórnar og sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum, sem undirrituð var þann 25. maí 2011, segir: ,,Aðilar eru sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu, sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×