Innlent

Hjólreiðamenn hunsa landverði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi, hvetur hjólreiðamenn til að nota stíga sem þeim eru ætlaðir en ekki stíga sem aðeins eru fyrir göngufólk.
Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi, hvetur hjólreiðamenn til að nota stíga sem þeim eru ætlaðir en ekki stíga sem aðeins eru fyrir göngufólk. Mynd/Karin Charlotta Victoria Englund
„Við höfum fengið kvartanir frá göngufólki sem hefur lent í því að hjólamenn hafa komið eftir stígum sem er bannað að hjóla á,“ segir Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi.

„Þetta eru mjög þröngir stígar og margar blindhæðir. Svo koma þeir á fullri ferð og fólki bregður illa við það,“ segir Hjörleifur sem kveður hjólreiðamennina gjarnan bera því við að þeim hafi yfirsést bannskilti við upphaf stíganna.

„Það er aldrei hægt að fullyrða hvort menn taka eftir skiltunum eða ekki. Það versta er að tvisvar höfum við lent í því að hjólamenn hafa virt að vettugi tilmæli landvarða um að hjóla ekki áfram. Við höfum verið hálf ráðalaus í bili yfir því hvernig við eigum að taka á þessu. En þetta gengur að minnsta kosti ekki til frambúðar,“ segir þjóðgarðsvörður.

Aðspurður segir Hjörleifur um að ræða íslenska fjallahjólamenn á sérútbúnum hjólum. Engin óhöpp hafi orðið ennþá vegna þess.

„Hins vegar er aðalástæðan fyrir því að göngustígarnir eru lokaðir fyrir hjólamönnum sú það er mikið af göngufólki á stígunum og oft ekki gott að sjá fyrir horn. Hér eru hjólaleiðir líka og við hvetjum alla hjólamenn til að leita sér upplýsinga um þá,“ segir þjóðgarðsvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×