Innlent

Björgvin vissi af úttekt á gömlu bönkunum

Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.
Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vissi að verið væri að vinna úttekt á ákveðnum atriðum í aðdraganda bankahrunsins, að sögn Jóns Þórs Sturlusonar aðstoðarmanns Björgvins. Aftur á móti hafði hann ekki vitneskju um hvaða endurskoðunarfyrirtæki var að vinna fyrir hvaða banka.

Fullyrt var í Kastljósi fyrr í kvöld að Björgvin hafi ekki vitað fyrr en í gær að ráðgjafafyrirtækið KPMG hefði verið fengið til þess að sinna verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis í kjölfar falls bankanna.

,,Björgvin var ekki með í ráðum hvaða endurskoðunarfyrirtæki var valið á hvern stað og hafði þar af leiðandi ekki yfirsýn hvaða fyrirtæki hafði verið að skoða hverja," sagði Jón Þór í samtali við Vísi.

Fjármálaeftirlitið skyldaði skilanefndir bankanna um miðjan október að rannsaka viðskipti stjórnenda, eigenda og viðskiptavina þeirra frá 1. september. Skilanefndunum var gert að fá utanaðkomandi endurskoðendur til aðstoðar við rannsóknina.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 18. október var greint frá því að Landsbankinn hafði fengið til sín endurskoðunarskrifstofuna Deloitte til að vinna úttektina, Glitnir KPMG og Kaupþing Price Waterhouse Cooper.

Gagnrýnt hefur verið að KPMG hafi verið fengið til að vinna verkefnið fyrir Glitni en KPMG er endurskoðandi margra stærstu eiganda gamla Glitnis.

Aðspurður hvort ekki hafi legið fyrir um langt skeið hvaða endurskoðunarfyrirtæki hafi unnið fyrir hvaða banka sagði Jón Þór: ,,Það var ekki ákvörðun viðskiptaráðherra og hann hefur ekki veitt því eftirtekt."












Tengdar fréttir

KPMG vill fá óháðan aðila til að skoða störf sín fyrir Glitni

KPMG vill að fenginn verði sérstakur óháður aðili til að rannsaka störf sín fyrir Glitni. Fjármáleftirlitið fól skilanefndum gömlu bankanna að ráða óháðan aðila til að kanna ákveðin skilgreind atriði í aðdraganda bankahrunsins.

Vissi ekki um úttekt KPMG fyrr en í gær

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, vissi ekki fyrr en í gær að ráðgjafafyrirtækið KPMG hefði verið fengið til þess að sinna verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis í kjölfar bankahrunsins. Þetta var fullyrt í fréttaskýringu í Kastljósi fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×