Skipuleggjendur Ólympíuleikana í Ríó 2016 hafa frumsýnt verðlaunapeningana sem keppt verður um á leikunum í ágúst.
Alls voru 2488 verðlaunapeningar framleiddir; 812 gull, 812 silfur og 864 brons. Hver verðlaunapeningur vegur 500g.
Að sjálfsögðu er merki ÓL í Ríó á verðlaunapeningunum, umlukið lárviðarsveig, sigurtákni í Grikklandi til forna.
Verðlaunapeningarnir fyrir Ólympíuleika fatlaðra voru einnig frumsýndir. Alls voru 2642 verðlaunapeningar framleiddir; 877 gull, 876 silfur og 889 brons.
Lítið tæki er inni í hverjum verðlaunapeningi á ÓL fatlaðra sem gefur frá sér hljóð þegar hann er hristur. Það heyrist hæst í gullverðlaunapeningunum en lægst í bronsinu.
Þetta er gert með íþróttamenn með sjónskerðingu í huga. Þá eru orðin „Rio 2016 Paralympic Games“ greypt í verðlaunapeningana með blindraletri.
Ólympíuleikarnir hefjast 5. ágúst og þeim lýkur 21. sama mánaðar. ÓL fatlaðra eru svo frá sjöunda til 18. september.
